Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, tekur undir með formanni stjórnar Strætó og telur brýnt að bjóða reksturinn út.

Hún segir stöðu Strætó jafnframt varpa ákveðnu ljósi á framtíðaráform um borgarlínu. Kópavogsbær muni kalla eftir skýrum svörum varðandi fyrirhugaðar fjárfestingar og rekstur borgarlínu.

„Þetta er alvarleg staða. Sveitarfélögin eru að koma með innspýtingu upp á hálfan milljarð inn í Strætó. Til þess að koma í veg fyrir reksturinn fari hreinlega í þrot,“ segir Ásdís.

Hallareksturinn sé slíkur að ekki verði hjá því komist að hagræða.

„Við höfum sagt að það þurfi að úthýsa rekstrinum. Við erum með greiningar þess efnis og höfum séð á vettvangi eigendanna að það er hagræðing fólgin í því að bjóða reksturinn út.“

Aðalmálið varðandi Strætó, að mati Ásdísar, sé þó að eitthvað þurfi að breytast.

„Reksturinn gengur ekki upp eins og sakir standa. Við erum nú þegar að setja marga milljarða inn í reksturinn. Það sama gildir um ríkið. Og nú er staðan orðin þannig að þörf er á enn meira fjármagni en allar áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Ásdís. Þess vegna verði eigendurnir að bregðast við.

Ég mun ekki samþykkja að taka yfir rekstur borgarlínu ef ég sé frá upphafi að hann er með öllu ósjálfbær.

Aðspurð hvað þetta þýði fyrir framtíðaráform um borgarlínu segir Ásdís að staðan hjá Strætó breyti því ekki að færa þurfi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu til betri vegar.

„Ég held að við finnum það öll sem sitjum föst í umferðinni á hverjum degi að eitthvað þarf að gerast. Við þurfum skilvirkari almenningssamgöngur. Við þurfum að tryggja að íbúar sjái þennan ferðamáta sem ákjósanlegan valkost.“

Það þarf sannarlega að ráðast í fjárfestingar að mati Ásdísar en það breyti þó ekki þeirri staðreynd að ákveðin óvissa hvíli yfir áformum um borgarlínu.

„Eitt af því snýr að rekstrinum. Hvernig ætlum við að standa að rekstri borgarlínunnar? Ef þetta er staðan sem við okkur blasir hjá Strætó? En svo snýr óvissan líka að fjárfestingunni. Kópavogsbær er fyrsti áfanginn í þessu verkefni og við höfum kallað eftir samtali við ríkið og Betri samgöngur um þessi atriði.“

Málið sé ekki alveg komið á það stig að Kópavogsbær vilji endurskoða gerða samninga en Ásdís segir hreinar línur að bærinn muni kalla eftir skýrum svörum.

„Ég mun ekki samþykkja að taka yfir rekstur borgarlínu ef ég sé frá upphafi að hann er með öllu ósjálfbær og gæti knésett sveitarfélagið. Það væri ekki ábyrg fjármálastjórn. Ég hef sagt alveg skýrt að við munum ekki fara lengra með þetta verkefni fyrr en við fáum skýr svör,“ segir Ásdís

Rætt verður ítarlega við Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs í þættinum Markaðurinn á Hringbraut í kvöld. Þátturinn er á dagskrá klukkan 19 og svo aftur klukkan 21.