„Mér finnst að það ætti að vera krafa að fólk sem vinnur við sjúklingaumönnun eigi að vera bólusett,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, sem kveður aðeins um 70 prósent starfsfólks spítalans hafa verið bólusett gegn inflúensu.

„Við erum að reyna að komast yfir 90 prósent. Mér finnst 70 prósent vera nokkuð lágt meðal heilbrigðisstarfsmanna. Það er alveg búið að sýna fram á það að heilbrigðisstarfsfólk getur smitað sjúklinga áður en það veikist og það á að vera bólusett á hverju ári,“ segir Bryndís.

„Sumir bara neita,“ svarar Bryndís um ástæðu þess að svo margir úr starfsliði Landspítalans séu óbólusettir. „Sumir segjast aldrei fá flensuna og sumir segjast verða veikir af því að fá flensubóluefni en við vitum að flensubóluefni er dautt efni – þú færð ekki inflúensuna af því að fá bólusetningu.“

Að sögn Bryndísar verður þó að hafa í huga að Landspítalinn sé fimm þúsund manna vinnustaður. „Þarna er fólk sem er ekkert endilega í tengslum við sjúklinga,“ bendir hún á.

Inflúensan nær að jafnaði hámarki hérlendis í lok janúar og í byrjun febrúar. Jafnvel þótt einhver vildi stökkva til núna og bjarga sér fyrir horn með bólusetningu á elleftu stundu þá er það ekki í boði því bóluefni er á þrotum og ekki verður pantað meira í vetur. Bryndís segir Landspítalann eiga 500 skammta eftir.

„Við erum með bóluefni fyrir starfsfólkið okkar og þá einhverja sjúklinga hérna á göngudeild en almenningur úti í bæ sem er ekki endilega tengdur göngudeildinni eða kannski með undirliggjandi sjúkdóm kemst ekki í bóluefni,“ segir Bryndís. Á síðustu árum hafi bóluefnið ávallt klárast og það finnist henni benda til þess að panta þurfi fleiri en þá 75 þúsund skammta sem hingað komi.

„Þannig að best er að fólk sem er veikt með flensu haldi sig heima, haldi fyrir munn og nef þegar það hnerrar og hóstar og noti handspritt þegar flensufaraldurinn stendur sem hæst,“ segir smitsjúkdómalæknirinn.