„Ég var 16 ára og hann 36 ára, hann notfærði sér það," svona hefst færsla Jófríðar Skaftadóttur sem hún birti á Twitter eftir viðtal við Þóri Sæmundsson í fréttaskýringarþætti Kveiks.

Jófríður segir Þóri aldrei hafa sett sig í samband eftir atvikið til að biðjast afsökunar eða jafnvel til að athuga hvernig hún hefði það. Hann hafi hins vegar tekið upp á því fyrir nokkrum mánuðum síðan að reyna fylgja henni á Instagram, þá sjö árum eftir atvikið.

Að sögn Jófríðar er mikilvægt að Þórir vinni markvisst í sjálfum sér.

„Hann ætti náttúrulega að leita sér faglegrar hjálpar, alveg 100 prósent. Það eru til úrræði fyrir það. Ræða við einhverja sérfræðinga í kynferðisbrotamálum. Það er svoleiðis vinna sem ég vil sjá hann fara í.“

Jófríður myndi vilja að Þórir viðurkenndi allt sem hann hefur gert og „sitji svolítið í sársaukanum sem hann hefur valdið.“

„Þetta er ekkert annað en barnagirnd. Við erum börn þegar við erum 16 ára, 17 ára og 15 ára. Þetta er ekki eðlileg hegðun,“ segir Jófríður.

Hún segir að fjöldi stúlkna sem hafi lent í honum verði ekki taldar á fingrum annarrar handar.

Vonsvikin með þátt Kveiks

Eins og flestum er kunnugt um var rætt við Þóri um það þegar honum var sagt upp störfum hjá Þjóðleikhúsinu árið 2017 eftir að hafa sent ólögráða stúlkum kynferðislegar myndir.

Í þætti Kveiks kom fram að Þórir hefði verið svo gott sem atvinnulaus allar götur síðan. Hann hafi ekki getað fengið vinnu vegna atviksins.

Í þættinum var því velt upp hvort að einstaklingar geti átt afturkvæmt í samfélagið eftir að hafa orðið uppvísir að ámælisverðri hegðun á borð við kynferðisbrot.

Jófríður segist vonsvikin með þátt Kveiks um málið. „Auðvitað hefðu þeir átt að vinna meiri rannsóknarvinnu, hefði ekki þurft að leita langt til að finna þolendur.“

Þá bendir Jófríður á að í þættinum hefði einnig átt að ræða við sérfræðinga í kynferðisbrotamálum í þættinum. „Einstaklinga sem vinna með þolendum og gerendum.“

„Ég myndi vilja skriflega yfirlýsingu frá Kveik og RÚV þar sem beðist er afsökunar og svarað er fyrir þetta drottningarviðtal,“ segir Jófríður jafnframt.

Þátturinn vakti gríðarleg viðbrögð og hafa margir gagnrýnt viðtalið.

Valdamismunun vegna aldurs

Jófríður opnar sig einnig um málið í samtali við Stundina.

„Ég var mjög ringluð á þessum aldri og brotin. Ég hitti hann eftir að við höfðum náð saman á Tinder. Í prófílnum mínum þar stóð að ég væri 18 ára en þegar ég og Þórir hittumst sagði ég honum strax að ég væri 16 ára. Honum fannst ekkert athugavert við það og við sváfum saman.

Það var ekki þvingað samræði, en ég var svo ung og brotin að strax daginn eftir lokaði ég á öll samskipti við hann og reyndi að gleyma því sem hafði gerst. Mér leið mjög illa en kunni ekki að orða það sem ég veit í dag að var valdamismunun. Hann var ekki bara helmingi eldri en ég, og ég unglingur, heldur var hann líka frægur leikari,“ segir Jófríður í samtali við Sundina.