Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og oddviti Vinstri grænna, segir að Reykjavíkurborg ætti að taka forystu í fordæmingu á hernaði og „öllu því sem tengist stríði og hernaðaríhlutunum.“

Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag fór hópur þingmanna, ásamt utanríkisráðherra, í skoðunarferð í bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman. Athygli hefur vakið að flugvélarnar, tvær Gumnman C2 Grayhound flutningavélar á vegum bandaríska hersins, sem notaðar voru til að flytja hópinn, fóru frá Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og innanríkisráðuneytisins sem undirritað var árið 2013 átti að hætta allri umferð herflugvéla og öllu flugi í þágu hertengdrar starfsemi um Reykjavíkurflugvöll nema þegar „þegar völlurinn þjónar sem varaflugvöllur og vegna öryggis- og björgunarstarfa.“

Líf er lítt hrifinn af því að brotið sé gegn samkomulaginu með þessum hætti, enda segist hún vera á móti veru Íslands í NATÓ eins og flokkur sinn, Vinstri græn. „Reykjavíkurborg á ekki að vera vettvangur fyrir hersýningar eða hernaðardýrkun og ég held að við í borgarstjórn getum öll verið sammála um það,“ segir Líf í samtali við Fréttablaðið í kvöld. „Hvar sem við erum, og hver sem við erum, fólk í áhrifastöðum og annars staðar, þá eigum við ávallt að hafna stríði og hernaði.“

Líf segist vilja sjá herlausa höfuðborg, en fyrir skömmu setti Reykjavíkurborg sig upp á móti því að tvær herþotur tækju þátt í flugsýningu í Reykjavík. Í því tilfelli var vitnað til samkomulagsins frá 2013. „Ég held að Reykjavík geti sent mikilvæg skilaboð sem höfuðborg Íslands, og að því sögðu er mikilvægt að kjörnir fulltrúar og ríkið viti og virði það samkomulag sem var gert á sínum tíma.“