„Á næstu mánuðum munum við í Viðreisn í samstarfi við LSH beita okkur fyrir því að settur verði á laggirnar sérstakur leikskóli fyrir LSH í samstarfi við ríkið,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdarstjóri og frambjóðandi Viðreisnar í skoðanarpistli í Fréttablaðinu í dag.
Í pistlinum talar Þórdís um að mannekla hafi lengi verið vandamál á landspítalanum og segir hún að vinnutímarnir séu helsta ástæða þess.
„Vaktavinna er ekki fjölskylduvæn og fátt í okkar samfélagi sem styður við fjölskyldufólk í þeirri stöðu. Það er viðbótarálag að finna út úr því hvar börnin eiga að vera þegar vaktirnar eru utan hefðbundins vinnutíma,“ segir hún meðal annars.
Þá telur hún að lausnin við vandamálinu sé að það verði sérstakur leikskóli fyrir starfsmenn Landspítalans að norrænni fyrirmynd.
„Við teljum rétt að sá skóli verði boðinn út til sjálfstætt starfandi aðila og tryggt að þjónustan verði á heimsmælikvarða líkt og er í leikskólum borgarinnar,“ segir hún og vill að í framhaldinu verði skoðað hvernig hægt sé að koma til móts við annað starfsfólk í ólíkum fyrirtækjum og stofnunum.