Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir ekki ólíklegt að aukin arðsemi Landsvirkjunar leiði til aukins pólitísks áhuga á blönduðu rekstrarformi fyrirtækisins. Hún telur rétt að ríkið selji stóran hlut í fyrirtækinu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hefur mikill arður hjá fyrirtækinu leitt til umræðu um hvort of lágt verð hafi fengist fyrir hluti Reykjavíkur og Akureyrar 2006. Vaxandi arður ýti undir pólitískan áhuga á einkavæðingu.

„Ég tel að það komi vel til greina að selja um 30 til 40 prósenta hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna með skilyrðum,“ segir Guðrún. Hún segir að þá yrði eignarhaldið áfram hjá almenningi. „Á sama tíma má spyrja hvort ekki liggi óinnleyst arðsemi í Landsvirkjun sem væri hægt að hámarka betur á meiri samkeppnisgrundvelli,“ segir Guðrún.

Ríkið fái vatnsréttindin

Daði Már Kristófersson, prófessor í umhverfis- og auðlindahagfræði og varaformaður Viðreisnar, segir að það yrðu mistök af áður óþekktri stærð ef orkuauðlindin, í eigu þjóðarinnar, yrði seld með fyrirtækinu. Ríkið eigi að taka yfir vatnsréttindin frá Landsvirkjun. Þá fyrst verði raunhæft að byrja umræðu um sölu fyrirtækisins til einka­aðila. Í raun hafi Landsvirkjun fengið þessi réttindi gefins á sjöunda áratug síðustu aldar.

Annað vandamál er, að sögn Daða, stærð Landsvirkjunar.

„Í öllum skilningi er fyrirtækið í einokunarstöðu. Þetta er eina fyrirtækið á orkumarkaði sem getur sinnt sveiflujöfnun, hin félögin eru ekki með þann sveigjanleika. Það er því nær engin samkeppni á íslenskum raforkumarkaði,“ segir Daði.

Úthlutað gulleggi

Með lögum frá 1997 lagði norska ríkið grunnrentuskatt á orkufyrirtækin, ígildi veiðigjalds. Daði telur eðlilegt að svipuð leið yrði farin hérlendis.

„Þó svo að tímabundinn afnotaréttur vatnsréttinda í eigu ríkisins sé lögfestur hér á landi nær hann til vatnsréttinda í eigu Landsvirkjunar.“

Varðandi arð og auknar líkur á að góð afkoma Landsvirkjunar, sem hyggst greiða út 15 milljarða króna arð fyrir síðasta ár, kyndi undir áhuga á einkavæðingu, bendir Daði á að methagnað fyrirtækisins verði að skoða í ákveðnu ljósi.

„Það er varla hægt að tala eins og Landsvirkjun sé sérstaklega vel rekið fyrirtæki. Fyrirtækið fékk úthlutað gulleggi, vatnsréttindunum, sem skilar þessari afkomu. Að tala um arðgreiðslur í þessu samhengi, þegar ekkert er greitt fyrir vatnsréttindin, er beinlínis hlægilegt.“

Ekki náðist í stjórnendur Landsvirkjunar.