Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hefur gert breytingartillögu við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þess efnis að Samtökin ’78 fái sambærilegt fjármagn og mælt var fyrir um í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, en um er að ræða 24 milljónir.

Í athugasemd með tillögunni segist Andrés telja að um yfirsjón sé að ræða sem leiðrétta þurfi. Hann vísar einnig til stjórnarsáttmálans og áherslu ríkisstjórnarinnar á að Ísland verði í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks.

Samtökin komust fyrst á fjárlög árið 2019 en þeirra er ekki getið í nýju fjárlagafrumvarpi.