Heil­brigðis­ráðu­neytið hefur birt á­form um lög­festingu refsi­á­byrgðar heil­brigðis­stofnana í sam­ráðs­gátt stjórn­valda. Í kynningunni eru einnig lagðar til breytingar á á­kvæðum laga um rann­sókn ó­væntra at­vika á heil­brigðis­stofnunum.

Hlut­læg refsi­á­byrgð heil­brigðis­stofnana hefur verið til um­fjöllunar í nokkur ár og á rót sína að rekja til máls hjúkrunar­fræðings sem var á­kærð árið 2015 fyrir mann­dráp af gá­leysi í störfum sínum á Land­spítalanum. Hún var sýknuð en málið hafði gríðar­leg á­hrif á hana og aðra heil­brigðis­starfs­menn.

Mark­mið hins fyrir­hugaða frum­varps er meðal annars að bæta starfs­um­hverfi heil­brigðis­starfs­manna með því að skýra og auka réttar­öryggi þeirra en einnig að auka öryggi sjúk­linga með því að efla öryggis­menningu innan heil­brigðis­kerfisins og fækka ó­væntum at­vikum sem hafa al­var­legar af­leiðingar í för með sér.

Stofnunin beri á­byrgð fremur en starfsfólkið

Sam­kvæmt kynningunni þykir eðli­legra að setja refsi­á­byrgð á heil­brigðis­stofnanir en á ein­staka heil­brigðis­starfs­fólk, þegar ó­vænt at­vik leiða til dauðs­falls eða stór­fellds líkams­tjóns, ef unnt er að rekja það til margra sam­verkandi þátta í starf­semi heil­brigðis­stofnunar. Vísað er til rann­sókna sem sýna að þegar ó­vænt, al­var­leg at­vik eiga sér stað sé or­sökin sjaldnast ein­angraður þáttur heldur sam­verkandi þættir og röð at­vika.

Á­formað er að setja sér­lög um hlut­læga refsi­á­byrgð heil­brigðis­stofnanana frekar en bæta á­kvæði um hana í al­menn hegningar­lög. Ljóst þykir að á­kvæði hegningar­laga um refsi­á­byrgð lög­aðila eigi ekki nægi­lega vel við þegar til at­hugunar eru al­var­leg at­vik í heil­brigðis­þjónustu.

Í kynningunni er hvergi nefnt hver refsing heil­brigðis­stofnunar gæti orðið sam­kvæmt hinum á­formuðu refsi­á­kvæðum.

65 ó­vænt al­var­leg at­vik til­kynnt í fyrra

Önnur en tengd á­form heil­brigðis­ráðu­neytisins fela í sér breytingu á rann­sóknum ó­væntra al­var­legra at­vika. Sam­kvæmt lögum um land­lækni ber að til­kynna land­lækni um öll ó­vænt al­var­leg til­vik við veitingu heil­brigðis­þjónustu. Í kynningunni segir að ó­vænt al­var­leg at­vik séu sem betur fer lítill hluti at­vika en þó hafi 65 al­var­leg at­vik verið til­kynnt land­lækni í fyrra.

Land­læknir rann­sakar um­rædd at­vik með það að mark­miði að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að sam­bæri­legt at­vik eigi sér ekki stað aftur. Sam­kvæmt gildandi rétti eru at­vikin einnig rann­sökuð af lög­reglu og á­formað er að breyta því þannig að rann­sókn þeirra fari fyrst og fremst fram hjá em­bætti land­læknis en ekki sam­tímis hjá lög­reglu. Land­læknir geti hins vegar kært mál til lög­reglu þegar grunur er um stór­kost­legt gá­leysi eða á­setning.

Hægt er að senda um­sagnir um á­forminn í sam­ráðs­gátt stjórn­valda til 22. ágúst næst­komandi.