Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, leggur fram þá hugmynd í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að ráðinn verði Næturlífsstjóri sem getur haldið utan um skemmtanalífið í borginni. Stjórinn myndi safna saman öllum kvörtunum um næturlífið á einn stað og samhæfa viðbrögð og vera tengiliður fyrir þær stofnanir sem málið viðkemur; lögreglu, heilbrigðiseftirliti, vinnueftirliti og öðrum.
Þá leggur hún einnig til að unnið verði að því að djammið byrji fyrr á kvöldin og að það verði jafnframt unnið að því að koma því fyrir annars staðar í borginni, þar sem færri búa.
Í grein sinni segir Kolbrún að margir hafi komið að máli við hana og lýst „ömurlegri tilveru“ um nætur í miðbænum þegar stemningin á næturklúbbunum er í hámarki. Hún leggur til að bregðast við því sé bæði tryggt að reglugerð um hávaðamengun sé framfylgt og að lögreglan og heilbrigðiseftirlit sinni virkara eftirliti í miðbænum og leysi upp óæskilega hópamyndun.
„Fyrsta skrefið er að virða gildandi reglugerðir. Lækka hávaðann og draga mikið úr bassanum (e. subwoofer). Hann er versti skaðvaldurinn þar sem hann berst langar leiðir og heyrist í gegnum þykkustu veggi marga tugi metra frá skemmtistöðunum. Í öðru lagi verður lögreglan og heilbrigðiseftirlitið að fara eftir lögum: leysa upp óæskilegar hópamyndanir (götupartí) og fara vandlega yfir húsakynni þessara næturklúbba með tilliti til hljóðvistar. Einhver viðurlög hljóta að vera sé farið yfir leyfileg hávaðamörk, en hávaðinn á götum má ekki vera mikið yfir 50 desíbelum (Evrópusambandið mælir með 40db),“ segir Kolbrún í grein sinni.
Hún segir að til þess að koma í veg fyrir að eigendur skemmtistaða tapi á þessum breytingum þá þurfi að fá fólk til þess að byrja að skemmta sér fyrr og þannig sé hægt að loka fyrr.
„Slagorðið er: eftir eitt ei heyrist neitt (sbr. eftir einn ei aki neinn). Samhliða þessum breytingum yrði unnið að uppbyggingu á sérstöku skemmtanasvæði (e. party zone) fyrir utan almenna íbúðabyggð handa þeim sem vilja djamma og tjútta fram á morgun , t.d. utarlega á Grandanum eða í einhverju öðru iðnaðarhverfi. Þar gæti lögreglan einnig haft mun betra eftirlit með því að allt fari vel fram. Sömuleiðis er afar brýnt að bjóða upp á næturstrætó til að flytja fólk aftur til heimkynna sinna þegar það er búið að fá nóg,“ segir Kolbrún í grein sinni og áréttar að það vilji enginn banna næturklúbba. Heldur vilji þau finna aðrar lausnir þar sem fólk og fjölskyldur geta sofið rólega í miðbænum.
Greinina er hægt að lesa hér í heild sinni hér að neðan.