Íris Stefanía Skúladóttir hefur undanfarna mánuði unnið að því að safna saman sögum um sjálfsfróun kvenna. Næsta laugardag gefur hún út bókina „Þegar ég fróa mér – þrjátíu og eitthvað sjálfsfróunarsögur frá konum“.

Íris segir í samtali við Fréttablaðið að umræða um sjálfsfróun kvenna hafi lengi verið henni hugleikin og að hana hafa lengi langað að opna umræðu um sjálfsfróun kvenna.

„Alveg frá því ég var sjálf unglingur hefur mig langað að opna á umræðuna. Ég fann svolítið fyrir því að ég átti ekki tilkall til umræðunnar um sjálfsfróun. Ég man vel eftir því þegar ég heyrði strák tala um sjálfsfróun í fyrsta skipti mjög opinberlega,“ segir Íris.

Hún segir að hún hafi verið í 6. bekk og hann í 7. bekk og það hafi vakið athygli hennar að spjall vinanna var alls ekki lokað, heldur hafi það ef til vill verið þess ætlað að fleiri heyrðu.

„Þá hugsaði ég: hvað ef ég gerði þetta?,“ segir Íris.

Ekki sömu reglur fyrir kynin

Hún segir það skýrt í samfélaginu að ekki sömu reglur gildi fyrir bæði kyn um slíka umræðu.

„Það er svo skýrt að ég má það ekki og það er bara af því að ég er kona. Það er ekkert hægt að tipla á tánum í kringum það. Það er staðreynd,“ segir Íris.

Hún útskýrir að þó hún vilji opna umræða þá þýði það samt ekki endilega að hún vilji sjálf tala um það opinberlega. Heldur bendir hún á að með því að hafa umræðuna lokaða sé ákveðin skekkja í samfélaginu sem smitist út í persónulegt líf fólks.

„Ég fór að finna fyrir því að þessi skekkja smitast út í allt og er einhvern veginn orsök og afleiðing skekkju í samfélaginu varðandi kynhegðun fólks. Með sögunum langar mig að opna á umræðuna og hleypa konum, og öðrum, inn í þennan heim. Það verður vonandi til þess að fólk fer að tala um þetta, og tengja við sögurnar,“ segir Íris.

Hún segir að þegar hún lesi sögurnar þá sé margt sem hún sjálf tengi við og telur líklegt að aðrar konur geri það, en tali kannski ekki um á milli sín.

„Skömm er algengt stef í sögunum og ef við upplifum skömm þegar við erum að njóta með okkur sjálfum og kanna líkama okkar. Hvað er það? Hvernig skilar það sér hvernig við upplifum okkur sjálf í samfélaginu í kynlífi? Við ættum að geta fagnað því að við séum að læra á líkamanna okkar, láta okkur líða vel og fá fullnægingu. Það er alveg geggjað dæmi og eitthvað sem maður ætti að gera reglulega,“ segir Íris.

Sjálfsfróun hefur áhrif á kynlíf með öðrum

Íris segir að það sé einnig ákveðið stef í nokkrum sögum í bókinni þar sem er fjallað um að ef konur hafi stundað sjálfsfróun á yngri árum eða geri það reglulega þá hafi það mikil áhrif á það kynlíf sem þær svo stunda með öðrum.

„Ímyndum okkur bara aðstæður tveggja kvenna, önnur þekkir líkama sinn og hvernig hún fær fullnægingu en hin sem hefur aldrei fróað sér og þekkir ekki líkama sinn. Það er ákveðinn munur kannski á þessum konum. Ég get auðvitað ekki alhæft en það er örugglega tvennt ólíkt fyrir manneskju sem hefur aldrei kannað líkama sinn og fyrir þann sem hefur gert það mjög mikið. Það eru nokkrar sögur þar sem konur segja frá því að þær halda að þær séu góðar að fá fullnægingu með öðrum, eða jafnvel raðfullnægingar, því þær voru í mikilli tilraunastarfsemi sjálfar á yngri árum. Þær hafi verið duglegar að æfa sig og þyki því auðveldara að fá það öðrum,“ segir Íris.  

Bókin hluti af stærra verkefni

Íris er meistaranámi sviðslistum við Listaháskóla Íslands og er bókin hluti af námi hennar þar. Bókin er bæði á íslensku og ensku. Sögurnar sem eru alls 34 í bókinni eru allar nafnlausar. 

„Til að halda upp á útgáfuna verð ég með sýningu í Gallery Port næsta laugardag. Ég er með myndlistaverk eftir þrjár listakonur og gjörning. Einnig er ég sjálf með innsetningu og svo verða auðvitað léttar veitingar í boði,“ segir Íris að lokum.

Bæði bókin og sýningin er hluti af stærra verkefni sem kallast Sjálfsfróunarþing fólksins, eða The Nation's Masturbation Assembly.

Nánari upplýsingar um hreyfinguna er að finna hér og viðburðinn fyrir útgáfu bókarinnar er að finna hér.

Hér að neðan má sjá Íriri að störfum við að binda inn bókina.