Séra Skírnir Garðarsson, fyrrum héraðsprestur á Suðurlandi, vill að öll tiltæk safnaðarheimili þjóðkirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu verði opnuð á daginn vegna kuldans. Þetta kom fram í tilkynningu sem Skírnir sendi á nokkra helstu fjölmiðla landsins í dag.

Skírnir segir þörfina brýna og að þessi ráðstöfun yrði í anda jólanna. Um væri að ræða tímabundna ráðstöfun í ljósi hins mikla kulda sem hefur einkennt desembermánuð í Reykjavík.

Tilkynningu Skírnis má lesa hér í heild sinni:

Vegna fimbulkulda á höfuðborgarsvæðinu.

Tillaga mín er sú að þjóðkirkjan opni nú þegar öll tiltæk safnaðarheimili á höfuðborgarsvæðinu á daginn fyrir þeim sem ekkert athvarf eiga í kuldanum. Þörfin er mjög brýn. Um er að ræða hóp fólks sem minna má sín, allavega nokkra tugi bræðra og systra. Allnokkrir söfnuðir ráða yfir hlýjum safnaðarheimilum, þar sem til staðar er bæði eldunar- og salernisaðstaða. Hver og einn söfnuður myndi hýsa sitt fólk sem bágstatt er á daginn og myndi svo sjá um að koma sínu fólki í gistingu. Þetta yrði tímabundin ráðstöfun í kuldakastinu, fram yfir jól og nýár.

Þetta yrði jólagjöf þjóðkirkjunnar til bræðra okkar og systra sem ekki eiga höfði sínu að halla í velferðarsamfélaginu. Sum þessarra systkina okkar hafa ekki nein úrræði nú í kuldanum. Þetta yrði í anda jólanna.

Tillöguna ber fram: Sr Skírnir Garðarsson.