Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vill að opinber rannsókn fari fram á viðskiptum lífeyrissjóða og sölu Símans hf. á Mílu ehf.

Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni.

Ragnar Þór segir mörgum spurningum enn ósvarað varðandi viðskiptin. Meðal spurninga sem Ragnar Þór tilgreinir eru hvenær samkomulag um viðskiptin lágu nákvæmlega fyrir.

Þá spyr hann jafnframt hvort allir hluthafar Símans hf, eða hið minnsta þeir stærstu hafi fengið sömu upplýsingar eða átt kost á sömu upplýsingum um fyrirhuguð viðskipti á Mílu og hvort þeir hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um fyrirhuguð viðskipti.

Misjafnar skoðanir

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá eru kaup innviðasjóðs hins franska sjóðastýringarfyrirtækis, Ardian France SA, á Mílu ehf, dótturfyrirtæki Símans, stærsta erlenda fjárfestingin hér á landi frá árinu 2008.

Samkeppniseftirlitinu barst styttri samrunatilkynning vegna kaupanna í síðasta mánuði og er nú verið að meta hvort hún sé fullnægjandi.

Misjafnar skoðanir hafa verið á sölu Mílu en í ályktun sem ASÍ sendi frá sér vegna málsins í október var varað sterklega við sölunni.

Þá sagði Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, að veiðileyfi verið gefið út á íslensk heimili með fyrirhugaðri sölu. Hann sagðist hafa sent þjóðaröryggisráði erindi vegna málsins.

Mörgum spurningum ósvarað

Ragnar Þór segir fleiri spurningum jafnframt ósvarað í færslu sinni, líkt og á hverju söluverðið í samningnum byggi. Hvort aðrir samningar hafi verið gerðir í tengslum við söluna á Mílu.

Jafnframt hvaða fyrirvarar séu í samningnum eða ákvæði sem geri aðilum kleift að hætta við fyrirhuguð viðskipti.

Ragnar Þór spyr einnig af hverju það hafi ekki verið boðað til hluthafafundar til að fjalla um, eða taka ákvörðun um söluna og öðrum tengdum samningum og hvernig salan á Mílu samræmist tilgangi Símans.

„Við hljótum að krefjast þess að fram fari opinber rannsókn á þessum viðskiptum og stoppa þau af á meðan hún stendur yfir,“ segir Ragnar að lokum.