Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, segir ljóst út frá yfirlýsingu landskjörstjórnar fyrr í dag að meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Hann segir það vera skilaboð til Alþingis að íhuga alvarlega að ógilda kosninguna í kjördæminu og vonast til að svo verði.
Í Kastljósinu í kvöld fór þáttastjórnandinn Sigríður Hagalín Björnsdóttir yfir málin með Magnúsi og Kára Hólmari Ragnarssyni, kennara við stjórnskipunarrétt við Háskóla Íslands.
Mistök voru gerð við talningu atkvæða í kjördæminu sem varð til þess að talið var tvisvar og eftir seinni talninguna duttu út fimm þingmenn og komu fimm þingmenn inn í þeirra stað. Landskjörstjórn greindi frá því að loknum fundi sínum í dag að það væri nú Alþingis að úrskurða um hvort kosningin hafi verið gild.
„Ég bind vonir við það að þingmenn skoði þetta mál af fullri sanngirni og komist að réttri niðurstöðu og ég tel að eina rétta niðurstaðan sé að ógilda kosningar í Norðvesturkjördæmi og boða til nýrra kosninga þar,“ sagði Magnús í Kastljósi í kvöld.
Vísaði hann enn fremur til þess að formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu hafi sjálfur viðurkennt að mistök hafi verið gerð og segir Magnús ljóst að hann hafi brotið lög en formaðurinn vísaði til hefðar í tengslum við málið. „Þetta er auðvitað fráleitt,“ sagði Magnús og bætti við að vegna þessa ríki ekki traust hvað kosningarnar varða.
„Ég held að aðalspurningin sé, hvernig eiga frambjóðendur Norðvesturkjördæmi, hundrað og sextíu talsins sem er á lista, og ekki síður kjósendur sem þarna tóku þátt, rúmlega sautján þúsund, að geta treyst því að fram hafi farið heiðarlegar og sanngjarnar kosningar þegar sá aðili sem stýrði kosningunum, formaður yfirkjörstjórnar, hefur gengið fram með þessum hætti?“
Traust og trúverðugleiki kosninganna rýrð
Magnús hefur sjálfur tilkynnt að hann muni kæra kosningarnar til kjörbréfanefndar en segist aldrei hafa haldið því fram að um kosningasvindl hafi verið að ræða, aðeins brot á kosningalögum. „Staðreyndin er sú að þarna eru lög sem gilda sem á að fara eftir og það var ekki gert og það rýrir allt traust og trúverðugleika hvað þessar kosningar varðar.“
„Við þurfum að spyrja þeirrar stóru spurningar, hversu mikið er undir í þessu samhengi vegna þess að allt kerfið okkar það byggir auðvitað á alþingiskosningum, þar veljum við þingmennina sem mynda löggjafarvaldið, löggjafarvaldið ræður því hverjir fara með framkvæmdarvaldið og það er síðan framkvæmdavaldið sem skipar dómara, þannig að það er allt kerfið okkar undir,“ sagði Magnús
Þingmenn dómarar í sínu eigin máli
Kári sagði næstu skref vera að landskjörstjórn muni funda þann 5. október til að úthluta kjörbréfum og þá muni liggja fyrir hvaða þingmenn verða á hinu nýja Alþingi. Fyrsta verkefni nýs Alþingis verði síðan skipun kjörbréfanefndar þar sem tekið verður til umræðu um hvort það eigi að úrskurða kosninguna ógilda.
„Það sem landskjörstjórn er að [stjórnin] muni ekki ganga lengra, eða telur það ekki hlutverk sitt, í að úrskurða eða ákveða með einhverjum hætti hvort þetta talningarmál eða meðferð atkvæða eigi að hafa einhver áhrif. Landskjörstjórn er að segja, það er spurning sem að Alþingi þarf að standa frammi fyrir,“ sagði Kári.
Kjörbréfanefnd verður ekki skipuð fyrr en nýtt Alþingi hefur tekið við en það liggur þannig fyrir að þingmenn sem komust inn eftir endurtalninguna verði þeir sem taki afstöðu til málsins. „Það er auðvitað ansi bagalegt að við skulum búa við kerfi sem er með þessum hætti,“ sagði Magnús. Kári bendir á að það sé almenna reglan að enginn sé dómari í eigin sök, en nú sé það einmitt málið.
„Varðandi einstaka þingmenn þá er ekki gert ráð fyrir því að þeir víki sæti í sjálfri kosningunni, það er Alþingi í heild sinni sem kýs um það hvort ógilda beri kosningarnar, þannig að það er kannski aðalatriðið. Það er gert ráð fyrir að allir taki þátt í því,“ sagði Kári.
Að lokum voru þeir spurðir út í hvort þeir telji líklegt að Alþingi ógildi kosninguna í Norðvesturkjördæmi og sagðist Magnús telja svo vera en Kári sagði ýmislegt enn óvíst. „Ég held að það fari að verulega miklu leyti eftir smáatriðum nákvæmlega í atburðarásinni sem við vitum ekki alveg að fullu leyti enn þá,“ sagði Kári.