Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður Betra lífs, sem rekur eitt þriggja áfangaheimila sinna í Fannborg í Kópavogi, segist hafa óskað eftir því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu veiti styrk til að ráða megi næturverði að heimilinu.

Umtalsverð sala á fíkniefnum fer fram á svæðinu í kringum Fannborg og Hamraborg eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Gefur auga leið að slík undirheimastarfsemi fer illa saman við rekstur áfangaheimilis þar sem íbúarnir reyna eftir mætti að halda sér allsgáðum á meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á Vogi.

„Það eru menn að koma inn í húsið eftir að við sem erum að vinna þarna erum farin,“ segir Arnar. „Þessi beiðni á sér það tilefni að það dó hjá okkur kona úr of stórum skammti. Ég sá á myndavélum að það fór einhver maður, sem átti ekki heima á áfangaheimilinu, inn á herbergið hennar nóttina áður. Ég komst síðan að því að þetta væri þekktur dópsali. Það er mjög líklegt að hann hafi verið að selja henni eitthvað.“

Arnar kveðst því vonast til að styrkbeiðnin vegna næturvörslu fái jákvæðar undirtektir. „Einhvers staðar verður þetta fólk að vera, það er ekki til neitt pláss fyrir það. Þarna tek ég inn fólk sem er að bíða eftir að komast í meðferð og er að berjast við að vera edrú og þetta er það sem okkur vantar,“ segir hann. Í Fannborg séu 24 fullbúin herbergi sem jafnan séu fullskipuð.

Áfangaheimilið í Fannborg er eitt þriggja sem Arnar rekur. Hin tvö heimilin segir hann fyrir fólk sem sé að koma úr meðferð. Í þeim séu samtals 22 herbergi. „Þar gengur mjög vel og þarf enga gæslu,“ segir hann.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í október síðastliðnum óskuðu Arnar og félagar hans í Bláa bandinu eftir því að fá gamla Víðinesheimilið á Álfsnesi til að innrétta þar meðferðarstöð. Hann segir þá sjálfa ekki ætla að reka stöðina heldur sjá um að standsetja byggingarnar í sjálfboðavinnu. Ekki sé hægt að bjóða fólki upp á sex mánaða bið eftir að komast í áfengis- og fíkniefnameðferð. „Það er bara þjóðfélaginu til skammar.“