Umræða um öryggisráðstafanir á Reynisfjöru hefur tekist upp að nýju eftir að banaslys varð þar á föstudaginn þegar öldurnar hrifsuðu karlmann á áttræðisaldri með sér í sjóinn.

Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, tjáði þá skoðun sína við Morgunblaðið að heimilt ætti að vera að loka Reynisfjöru. Íris Guðnadóttir, einn landeigenda að Reynisfjöru, er enn efins um hugmyndir í þá átt.

„Fjaran er þriggja kílómetra löng,“ sagði hún við Fréttablaðið.

„Það er ekki hættulegt að sitja í fjörunni og horfa á útsýnið. Þegar sjórinn er uppi við stuðlabergið að lemjast við það er að sjálfsögðu hættulegt að vera að hlaupa fyrir Hálsanefið og vera að príla í því. Við þessar aðstæður þarf að takmarka aðgengi að stuðlaberginu með merkingu og gæslu en það er samt hægt að sitja og njóta þótt maður sé ekki að fara svona nálægt.“

Lilja skipaði starfshóp um Reynisfjöru stuttu eftir að hún tók við ráðuneytinu eftir síðustu kosningar. Starfshópurinn fylgir í kjölfar nefndar um mál Reynisfjöru sem hefur verið starfræk frá árinu 2020.

Tuttugu milljónum varið í ölduspákerfi

„Ég hef engar upplýsingar um þennan nýja starfshóp,“ sagði Íris. „Það virðist vera mjög vinsælt að skýla sér á bak við það að það sé búið að stofna nefndir og gera áhættumat. Það hefur verið eitthvað áhættumat um Reynisfjöru í vinnslu í þrjú ár. Ég hef kallað eftir að fá það sent, en það virðist ekki vera tilbúið. Ég spyr bara hvar þetta áhættumat er sem hefur tekið þrjú ár að vinna, af hverju er það ekki tilbúið?“

Íris Guðnadóttir, landeigandi við Reynisfjöru.
Mynd/Aðsend

Íris benti á að árið 2016 hafi verið settar til hliðar um 20 milljónir króna af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að þróa spákerfi um öldugang í Reynisfjöru. „Það er hægt að finna þetta spákerfi á heimasíðu vegagerðarinnar, en það eru engar leiðbeiningar um hvernig á að nota það eða hvernig það getur nýst fólki í fjörunni. Það veit enginn hvernig á að nota það, því það hefur ekkert verið fjallað um það. Þetta er bara einhver grænn, gulur, rauður áhættustuðull, en hann segir ekkert um aðstæðurnar í fjörunni.“

Íris þvertók aftur fyrir að hún eða aðrir landeigendur að Reynisfjöru hefðu staðið í vegi öryggisráðstafana. Í nóvember síðastliðinn hafði hún borið af sér ásakanir þess efnis af hálfu verkefnastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hafði líkt þeim við „blauta tusku.“ Sömuleiðis sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í viðtali við Morgunblaðið að ekki hafi fengist samþykki allra landeigendanna fyrir öryggisúrbótum.

„Það er fáránlegt að bæði opinberir aðilar og aðrir séu að skýla sér bak við það að landeigendur séu að setja sig á móti öryggisumbótum í fjörunni,“ sagði Íris. Ég veit ekki um neinn sem hefur gert það. Það er ennþá verið að nota það sem skálkaskjól. Það er búið að setja vinnu í öryggisúrbætur en þær skila sér aldrei austur fyrir Hellisheiði.“

„Hafa ekki krossarnir við Ingólfsfjall og bílhræin uppi á Sandskeiði gripið okkar augu?“

Flókið að ætla að loka á sumum dögum

Ingi Már Björnsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík, sagðist einnig efast um að það dygði að loka fjörunni.

„Í mínum huga er þetta mjög flókið mál að ætla að taka einhverjar lokanir hluta af vikutímanum,“ sagði hann. „Það yrði að vera mannlegt mat sem metur það, og ég veit ekki hvaða maður vill vera í þeirri stöðu að ákveða hvenær er opið og hvenær lokað, og þegar ákveðið er að hafa opið drepur sig einhver þarna. Er hann þá orðinn ábyrgur fyrir því af því að það var ekki lokað?“

„Það er ekki svona einfalt að segjast ætla að setja lokanir þarna til að koma í veg fyrir þetta. Það gengur bara ekki upp. Staðirnir eru fleiri en Reynisfjara, þótt þarna séu slysin að gerast. Ef þarna verður lokað fer fólk eitthvað annað. Fólk er að fara til að skoða þetta og komast í návígi við það. Það er flókið að koma í veg fyrir þetta. Það dugar ekkert nema fræðsla og fá fólk til að lesa eða meðtaka fræðsluna sem er að koma þarna að. Það er byrjunin, og það getur vel verið að það verði að gera það svolítið sjokkerandi. Ég hef margoft stungið upp á því að setja upp þarna minnisvarða um fólkið sem hefur látist þarna. Við vitum að það virkar á okkur. Hafa ekki krossarnir við Ingólfsfjall og bílhræin uppi á Sandskeiði gripið okkar augu?“

Ingi segir að björgunarsveitarmenn bregðist við slysum á Reynisfjöru eins og hverju öðru útkalli.

„Við reynum að gera okkar besta en við vitum alveg hverjar aðstæðurnar eru. Það er farið af algerum forgangi í þetta og alltaf farið í þetta eins og hvert annað björgunarverkefni. En við vitum að það er ekki alltaf möguleiki á því að bjarga neinum, því yfirleitt er staðan þannig að fólk fer mjög fljótt þarna. Það er enginn að lifa af í þessum aðstæðum eins og í tjörninni í Reykjavík.“

Fréttin hefur verið leiðrétt. Áður stóð Ingólfshöll en átti að standa Ingólfsfjall. 16:15