Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur vænlegast að loka landinu svo hægt sé að ná utan um hópsmit sem erfiðlega hafi reynst að rekja.

„Ég persónulega kýs að loka landinu á þessu augnabliki og reyna að ná utan um þann faraldur sem er í gangi núna og taka svo ákvörðun að því loknu,“ sagði Kári í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sem Vísir gerir að umfjöllunarefni sínu.

Smit borist til landsins þrátt fyrir landamæraskimun

Að hans sögn hafi smit borist hingað til lands þrátt fyrir varúðarráðstafanir og að skimun á landamærum hafi gengið vel. Lítill vafi væri á því að nú megi rekja smit til einstaklings sem kom hingað til lands.

„Það er veira með eina samsetningu af stökkbreytingu og það eru 32 hópar sem ekki er hægt að rekja saman sem hafa smitast af sömu veirunni,“ bætti hann við.

Telur Kári að kórónaveiran verði áfram viðvarandi í íslensku samfélagi og að fólk þurfi að breyta lifnaðarháttum sínum til að lifa með því. Til að mynda verði ekki í boði að stunda það menningarlíf sem sumir séu vanir og erfitt að halda skólum opnum með þeim hætti sem við erum vön.