„Það sem ég get sagt núna er að það er engin yfirlýsing komin. Það er engin undirrituð yfirlýsing og það er ekkert samkomulag.“

Þetta sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, fyrr í kvöld aðspurð um það hvort staðið hafi til að birta sameiginlega yfirlýsingu ASÍ og Icelandair í dag.

Kjarninn greindi frá því í morgun að aðilarnir hafi komist að samkomulagi um að ljúka deilum sínum sem þá voru á leið fyrir félagsdóm. Uppspretta þeirra var sú aðgerð Icelandair að segja upp öllum starfandi flugliðum í júlí og segjast ætla að semja við annað stéttarfélag en Flugfreyjufélag Íslands.

Að sögn Kjarnans var sameiginleg yfirlýsing ASÍ og Icelandair lögð fram á fundi miðstjórnar í morgun þar sem fram hafi komið að fallið yrði frá því að fara með málið fyrir félagsdóm.

Til stæði að gefa yfirlýsinguna út fyrr í dag

Þá hafi Icelandair í henni gengist við því að aðgerðir sínar hafi brotið í „bága við góðar sam­skipta­reglur sem aðilar vinnu­mark­að­ar­ins vilja við­hafa“ og að Icelandair telji „nauð­syn­legt fyrir fram­tíð félags­ins að virða stétt­ar­fé­lög og sjálf­stæðan samn­ings­rétt starfs­fólks síns[…]“.

Jafnframt sagðist miðilinn hafa fyrir því heimildir að stefnt hafi verið að því að senda út lokaútgáfu yfirlýsingarinnar í dag.

Aðspurð um hvort slík yfirlýsing hafi verið lögð fram á fundi miðstjórnar segir Drífa í samtali við Fréttablaðið að hún ætli ekki að tjá sig frekar um málið.

Lagðist gegn tillögunni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og stjórnarmaður í miðstjórn ASÍ, staðfesti í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld að kosið hafi verið um sameiginlega yfirlýsingu ASÍ og Icelandair á aukafundi miðstjórnar í morgun.

Hún segist hafa lagst gegn yfirlýsingunni og sagði enn fremur í samtali við Kjarnann að með þessu væri „verið að nota mið­stjórn Alþýðu­sam­bands­ins sem ein­hvers konar afláts­bréfa-ma­sk­ín­u.“

Eins og áður segir vildi Drífa Snædal, forseti ASÍ, ekki staðfesta að slík atkvæðagreiðsla hafi farið fram í samtali við Fréttablaðið.

„Þið munið augljóslega vita af því ef Icelandair og ASÍ senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu,“ segir hún að lokum við blaðamann.