Kjósandi í Norðvesturkjördæmi sem kært hefur kosningarnar til Alþingis óskar eftir endurmati á hæfni og getu Inga Tryggvasonar, formanni yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til að sinna stjórnsýslu-, lögmanns-, og dómarastörfum.

Í kæru Sveins Flóka Guðmundssonar er vísað sérstaklega til starfa Héraðsdómara, „í ljósi alvarlegra afglapa í störfum hans sem formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis.“

Sveinn Flóki óskar eftir því að Dómsmálaráðuneytið skoði málið en hann telur Inga hafa sýnt virðingarleysi með yfirlýsingum sínum eftir kosningar.

„Ummæli og yfirlýsingar hans í fjölmiðlum eftir nýliðnar kosningar verði teknar til skoðunar þar sem hann opinberar virðingarleysi sitt fyrir gildandi lögum í landinu og stjórnsýslustörf sem hann hefur unnið síðastliðinn áratug verði tekin til athugunar í ljósi hagsmunaárekstra þar sem unnin hafi verið mjög náið stjórnsýslustörf og önnur störf í eigin þágu,“ segir meðal annars í kæru hans.

Kærandi gerir kröfu um ógildingu kosninga í Norðvesturkjördæmi og óskar eftir uppkosningu.

Þrettán kærur hafa nú borist Alþingi vegna nýliðinna Alþingiskosninga og rennur kærufrestur út á föstudaginn næstkomandi. Þar af eru kærurnar fimm frá frambjóðendunum sem misstu sæti sín eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.

Greint hefur verið frá því að yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hafi fengið senda sektargerð frá lögreglustjóranum á Vesturlandi þar sem henni er boðið að ljúka málinu með sekt.

Þá greindi RÚV frá því að svo virðist sem kjörstjórnarmenn ætli ekki að þiggja sektarboðið. Það geti varðað 12 daga fangelsisvist.