Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu er varðar skjaldarmerki á Alþingishúsinu. Meðflutningsmenn hans eru flokksbræður hans Ásmundur Friðriksson og Óli Björn Kárason

Hann vill sjá tvö skjaldarmerki sem prýddu Alþingishúsið á vígsludegi þess árið 1881 aftur á húsinu. Umrædd merki sýna annars vegar hinn krýnda þorsk Íslands og hins vegar hin krýndu ljón Danmerkur.

Í greinargerð um málið segir að „markmiðið með tillögunni er að færa framhlið hússins í upprunalegt horf og halda í heiðri eigin sögu, sem mikilvægt er og skylt að varðveita.“

Þá er tekið fram að endurbætur á Alþingishúsinu á síðastliðnum árum hafi stefnt að því að húsinu verði komið í því sem næst upphaflegt horf, og að umrædd tillaga miði að því sama.

„Komandi kynslóðir eiga rétt á því að þekkja söguna og þau mannvirki og kennileiti sem bera henni vitni, þar á meðal Alþingishúsið í upphaflegri mynd.“ segir í greinargerðinni. Umrædd merki væru sitthvorum megin við hliðina á svalaglugga Alþingishússins, eins og sést á mynd sem fylgir tillögunni.

Hér er mynd af Alþingishúsinu sem fylgir tillögu Birgis.
Skjáskot úr greinagerð Birgis.