Kosninga­bar­átta er hafin í Frakk­landi fyrir for­seta­kosningar á næsta ári. Marine Le Pen, leið­togi öfga­hægri­flokksins Rassemblement National, hóf bar­áttu sína í dag með harðri að­för að sitjandi for­seta Emmanuel Macron og meintu laga­leysi í sumum hverfum landsins.

Le Pen kallaði Macron „hroka­fullan“ á fundi með stuðnings­fólki sínu í Fréjus á Mið­jarðar­hafs­strönd Frakk­lands í dag. Hún lofaði því að koma aftur á lögum og reglu á fá­tækari svæðum, sem hún segir undir ægi­valdi vímu­efna­sala og sum hverfi séu „tali­bana­vædd.“

Emmanuel Macron Frakk­lands­for­seti.

„Það verður enginn staður í Frakk­landi sem lögin ná ekki til. Við munum upp­ræta gengi og mafíur og alla þá, íslamísta eða ekki, sem vilja koma á reglum og lífs­háttum sem eru ekki okkar,“ sagði hún. Le Pen hefur leitast við að bæta í­mynd flokks síns eftir að hún tók við for­ystu af föður sínum Jean-Mari­e fyrir ára­tug.

Le Pen hefur dregið úr and­stöðu Rassemblement National við Evrópu­sam­bandið og reynt að milda af­stöðu flokksins gagn­vart öðrum kyn­þáttum. Engu að síður veigra margir Frakkar sér við að kjósa hana vegna orð­spors hennar fyrir öfgar. Hún hefur nú látið af for­manns­em­bættinu og er vonar­stjarna flokksins Jordan Bar­della tekinn við. Hann er sitjandi þing­maður á Evrópu­þinginu.

Jordan Bar­della er nýr leið­togi Rassemblement National.
Fréttablaðið/EPA

Skoðana­kannanir benda til þess að Le Pen og Macron berjist um em­bættið. Fái enginn fram­bjóðandi meiri­hluta at­kvæða í fyrstu um­ferð kosninganna er kosið aftur milli þeirra tveggja efstu.

Macron tók við em­bætti árið 2017 og sagðist þá vera „hvorki til hægri né vinstri“ en hefur þótt færa sig sí­fellt lengra á hægri kantinn í að­draganda kosninganna sem fara fram í apríl. Macron hefur hins vegar ekki lýst því yfir hvort hann hyggist bjóða sig fram en allar líkur eru á því.

„Við vitum núna hver Emmanuel Macron er og hvað hann stendur fyrir. Svo virðist sem Frakkar vilji þetta val milli hans og mín. Þetta er í reynd val milli al­þjóða­væðingar og þjóð­ernis­hyggju,“ sagði Le Pen á fundi með stuðnings­fólki.

Öryggið á oddinn

Bæði Le Pen og flokkar nær miðju hægra megin leggja höfuð­á­herslu á lög og reglu auk að­gerða í inn­flytj­enda­málum í að­draganda þeirra. Í síðustu viku fóru fram réttar­höld yfir meintum á­rásar­mönnum í hryðju­verka­á­rásinni í París árið 2015 og flótta­manna­straumur frá Afgan­istan hefur aukið á­hersluna á mál­efni inn­flytj­enda.

Anne Hidal­go, borgar­stjóri Parísar úr röðum Sósíal­ista, til­kynnti í dag um fram­boð sitt til for­seta. Hún hefur lofað því að byggja upp land sem er „rétt­látara, sterkara og öruggara.“