Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að Alþingi veiti framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu, milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavík.
Ásmundur er fyrsti flutningsmaður lagafrumvarps um málið en að því standa einnig fleiri þingmenn Suðurkjördæmis úr nokkrum flokkum.
Línan á að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum og auka flutningsgetu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, til að styðja við afhendingaröryggi á höfuðborgarsvæðinu og að styrkja flutningskerfi raforku á suðvesturhorni landsins. Lagning línunnar hefur tafist mjög frá því að framkvæmdaleyfi fékkst 2013. Landeigendur og umhverfisverndarsamtök hafa kært leyfið og eftir ógildingu Hæstaréttar árið 2016 þurfti Skipulagsstofnun að gefa út nýtt mat þar sem sex kostir voru skoðaðir.
Jarðstrengur ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda
Landsnet vill leggja loftlínu en Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að sá kostur hefði neikvæðustu áhrifin í för með sér á ferðaþjónustu og náttúru. Jarðstrengur væri vænlegri. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sagði í fyrra, þegar hún var ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að jarðstrengur væri ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda.
Ásmundur leggur til að Alþingi veiti heimild með lögum til framkvæmda við hin „nauðsynlegu flutningsvirki“ þar sem viðkomandi sveitarstjórnir hafa ekki þegar veitt framkvæmdaleyfi.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hafa þrjú af fjórum sveitarfélögum þegar veitt framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, en bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga neitar að veita Landsneti leyfið.
Sjálfstæðismenn vilja grípa fram fyrir hendur sveitarfélagsins til að „tryggja framgang þjóðhagslegra mikilvægra framkvæmda í flutningskerfi raforku“, eins og segir í greinargerð með frumvarpi Ásmundar.
