Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, segir að stóraukin umsvif rússneska hersins kalli á ný viðhorf til varnarmála hér á landi.

„Við þurfum að meta þörfina á að hafa hér lítið varnarlið til að koma í veg fyrir eða verjast hugsanlegum skemmdarverkum eða innrás, uns stærra lið bærist,“ segir Baldur.

Baldur telur að Íslendingar hafi hvorki þekkingu né pólitískan vilja til að stofna íslenskt varnarlið. Áhugavert gæti verið að horfa til Norðurlandanna með gæslu ef það gæti minnkað ágreining. Gæsla liðs sem næmi nokkur hundruð hermönnum gæti færst milli landa.

„Það hefur aldrei verið meiri hætta á átökum í Evrópu en nú frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Við þurfum að bregðast við því,“ segir Baldur.

Flotinn er sterkasti liður rússneska hersins en hann kemst ekki um Miðjarðarhafið og á í vandræðum með að athafna sig á Eystrasaltinu vegna ingöngu Finna og Svía í NATO.

„En rússneski flotinn getur athafnað sig í Norður-Atlantshafi. Ef átök breiðast út verðum við að vera viðbúin,“ segir Baldur.

„Hjá litlum ríkjum eins og Íslandi snýst allt um að koma í veg fyrir árás. Eitt skemmdarverk getur valdið mjög miklum skaða í litlu ríki,“ segir Baldur og bendir á mikilvægi Keflavíkur í alþjóðasamgöngum.