Ja­cinda Ardern, for­sætis­ráð­herra Nýja-Sjá­lands, segir nauð­syn­legt að herða hryðju­verka­lög í ljósi á­rásar í verslun í Auck­land í gær en 32 ára gamall karl­maður frá Srí Lanka réðst á fólk í versluninni með hníf og særði sjö manns. Þrír eru nú í lífs­hættu eftir á­rásina að því er kemur fram í frétt BBC.

„Við verðum að vera til­búin til að ráðast í þær breytingar sem kunna kannski ekki endi­lega að breyta for­tíðinni en gætu breytt fram­tíðinni,“ sagði Ardern á blaða­manna­fundi um málið. Sagðist hún búast við að breytingarnar á lögunum myndu verða sam­þykktar af þinginu fyrir lok septem­ber.

Undir eftirliti frá 2016

Ardern lýsti á­rásinni sem hryðju­verka­á­rás en maðurinn, sem hefur nú verið nafngreindur sem Ahamed Aat­hil Mohamed Sam­su­deen, kom til Nýja-Sjá­lands árið 2011 sem nemi og sótti síðar um hæli. Hann var skotinn til bana í gær af lög­reglu í kjöl­far á­rásarinnar.

Sam­kvæmt frétt BBC var hann þekktur stuðnings­maður ISIS og hafði hann verið hand­tekinn nokkrum sinnum fyrir á­rásina í gær. Ardern sagði að reynt hafi verið með öllum lög­legum leiðum að halda manninum frá sam­fé­laginu en hann hafði verið undir eftir­liti frá árinu 2016.

Lögregla hafði því fylgst með manninum í gær fyrir árásina en að þeirra sögn voru engar vísbendingar um að árásin myndi eiga sér stað.