Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, leggur það til að börn hefji skóla­göngu sína fyrr, við fimm ára aldur í stað sex, og ljúki þá skóla­göngunni við fimm­tán ára aldur en ekki sex­tán. Það vill hún gera svo að hægt sé að koma börnum inn á leik­skóla tólf mánaða aldur og þannig brúa bilið á milli fæðingar­or­lofs og leik­skóla.

„Við viljum tryggja öllum börnum leik­skóla­pláss við 12 mánaða aldur en vitum að það verður ekki auð­velt verk. Bleiki fíllinn í her­berginu er mönnunar­vandinn,“ segir Hildur í að­sendri grein á vef Vísis í morgun þar sem hún kallar eftir því að stjórn­mála­menn hafi hug­rekki til að endur­skoða nú­verandi kerfi og jafn­vel breyta því.

Á forsendum leikskólans

Hildur segir að ef börn myndu hefja skóla­gönguna fyrr yrði kennslan í fyrsta bekk á for­sendum leik­skólans og að þannig mætti skapa aukna tengingu á milli skóla­stiganna.

„Það er löngu tíma­bært að upp­hefja leik­skóla­starfið enda sýnir fjöldi rann­sókna mikil­vægi þess að leikur sé notaður sem kennslu­að­ferð fyrir ung börn,“ segir Hildur í grein sinni og bendir á að víða er­lendis hefjist grunn­skólinn við fimm ára aldur auk þess sem að í flestum saman­burðar­löndum þá út­skrifist ung­menni úr fram­halds­skóla við 18 ára aldur og þannig gæti breytingin aukið sam­keppnis­hæfi ung­menna á Ís­landi.

Þarf að hugsa út fyrir boxið

Hildur segir að breytingin myndi ekki einungis tryggja betri dreifingu mann­auðs heldur einnig skapa fjár­hags­legt svig­rúm sem nemur um fjórum milljörðum ár­lega vegna þess að börnin útskrifast ári fyrr og því þarf ekki að manna eins marga árganga. Hún segir að það væri hægt að nýta fjármagnið til að bæta kjör starfs­fólks og að­stöðu nem­enda.

„Allir flokkar sem bjóða fram í borgar­stjórnar­kosningunum í vor lofa út­spili í leik­skóla­málum. Skyldi engan undra. Málið snertir af­skap­lega mörg heimili og vinnu­staði í borginni. Börnin sjálf missa fyrstu tæki­færin til að þroskast og dafna innan um jafn­aldra sína. Afar og ömmur hlaupa í skarðið, vinnu­veit­endur missa mikil­væga starfs­krafta og nýir for­eldrar þurfa að setja starfs­fra­mann á bið. Við töpum öll á því ó­fremdar­á­standi sem ríkir í leik­skóla­málunum,“ segir Hildur í grein sinni og í­trekar að til þess að leysa neyðar­á­standið sem er uppi í leik­skóla­málum í borginni þá þurfi að hugsa út fyrir boxið.

Greinina er hægt að lesa í heild sinni hér.