Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, leggur það til að börn hefji skólagöngu sína fyrr, við fimm ára aldur í stað sex, og ljúki þá skólagöngunni við fimmtán ára aldur en ekki sextán. Það vill hún gera svo að hægt sé að koma börnum inn á leikskóla tólf mánaða aldur og þannig brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.
„Við viljum tryggja öllum börnum leikskólapláss við 12 mánaða aldur en vitum að það verður ekki auðvelt verk. Bleiki fíllinn í herberginu er mönnunarvandinn,“ segir Hildur í aðsendri grein á vef Vísis í morgun þar sem hún kallar eftir því að stjórnmálamenn hafi hugrekki til að endurskoða núverandi kerfi og jafnvel breyta því.
Á forsendum leikskólans
Hildur segir að ef börn myndu hefja skólagönguna fyrr yrði kennslan í fyrsta bekk á forsendum leikskólans og að þannig mætti skapa aukna tengingu á milli skólastiganna.
„Það er löngu tímabært að upphefja leikskólastarfið enda sýnir fjöldi rannsókna mikilvægi þess að leikur sé notaður sem kennsluaðferð fyrir ung börn,“ segir Hildur í grein sinni og bendir á að víða erlendis hefjist grunnskólinn við fimm ára aldur auk þess sem að í flestum samanburðarlöndum þá útskrifist ungmenni úr framhaldsskóla við 18 ára aldur og þannig gæti breytingin aukið samkeppnishæfi ungmenna á Íslandi.
Þarf að hugsa út fyrir boxið
Hildur segir að breytingin myndi ekki einungis tryggja betri dreifingu mannauðs heldur einnig skapa fjárhagslegt svigrúm sem nemur um fjórum milljörðum árlega vegna þess að börnin útskrifast ári fyrr og því þarf ekki að manna eins marga árganga. Hún segir að það væri hægt að nýta fjármagnið til að bæta kjör starfsfólks og aðstöðu nemenda.
„Allir flokkar sem bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum í vor lofa útspili í leikskólamálum. Skyldi engan undra. Málið snertir afskaplega mörg heimili og vinnustaði í borginni. Börnin sjálf missa fyrstu tækifærin til að þroskast og dafna innan um jafnaldra sína. Afar og ömmur hlaupa í skarðið, vinnuveitendur missa mikilvæga starfskrafta og nýir foreldrar þurfa að setja starfsframann á bið. Við töpum öll á því ófremdarástandi sem ríkir í leikskólamálunum,“ segir Hildur í grein sinni og ítrekar að til þess að leysa neyðarástandið sem er uppi í leikskólamálum í borginni þá þurfi að hugsa út fyrir boxið.