Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að „brugghúsdagur“ verði haldinn hátíðlegur, frumvarp um breytingu á áfengislögum var samþykkt á Alþingi fyrr í kvöld. Breytingin felur í sér það að framleiðslustaðir áfengis geti selt áfengi og er því frávik frá þeirri reglu að ÁTVR hafi einkaleyfi á smásölu áfengis.
„Loksins, loksins, því að þrátt fyrir að málið láti kannski ekki mikið yfir sér, þá er þetta allra fyrsta glufan sem við myndum lögfesta hér gegn undanþágu Íslenska ríkisins frá EES samningnum á einokun á smásölu á áfengi,“ sagði Hildur í ræðustól á Alþingi áður en málið var samþykkt.
Ég ætla að leyfa mér að segja að ég held að þessu tilefni ættum við að ákveða að 15. júní, eða jafnvel 16. júní eftir atvikum, verði haldin hátíðlegur eins og við höfum haldið upp á bjórdaginn frá 1. mars 1989 og kalla hann „brugghúsdaginn.“
Við lok ræðu hennar má heyra þingmenn í þingsal kalla „Heyr, heyr!“ en ræðu Hildar má sjá í heild sinni hér.
Eins og Hildur segir þá hefur bjórdagurinn verið haldinn hátíðlegur ár hvert þann 1. mars, en þá var sala á bjór leyfð aftur, eftir að hafa verið bannaður frá árinu 1915. 340.000 dósir af bjór seldust á fyrsta bjórdeginum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fagnaði því að frumvarpið hefði verið samþykkt. „Þann 1. júlí næstkomandi tekur stærsta breytingin á áfengislögum gildi frá því áður en ég var hugmynd (1989),“ skrifar hún á Twitter.
Þann 1. júlí næstkomandi tekur stærsta breytingin á áfengislögum gildi frá því áður en ég var hugmynd (1989). Þá mega handverkbrugghús selja áfengi beint frá framleiðslustað. Frumvarpið lagði ég fyrst fram í byrjun árs 2020. Síðan þá hefur stuðningur vaxið og nú samþykkt.
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) June 15, 2022