Stefnt er að því að Indland verði þróað land á næstu 25 árum. Þetta sagði Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, í þjóðhátíðarávarpi sínu frá Rauða virkinu í gær.

„Við verðum að breyta Indlandi í þróað land á næstu 25 árum, á okkar líftíma,“ sagði Modi í ræðu sinni. „Þetta er stór skuldbinding og við ættum að vinna að henni af öllum okkar mætti.“

Fjöldi þátta er tekinn til greina við mat á þróunarstigi landa, þar á meðal landsframleiðsla, þjóðarframleiðsla og tekjur íbúa. Þá er einnig tekið tillit til lífsgæða og innviða. Hagkerfi Indlands er það sjötta stærsta á heimsvísu og fer ört vaxandi en tekjur íbúa eru þó enn langt undir viðmiði þróaðra landa.