Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir vel koma til greina að tengja laun á almennum markaði við vísitölu og fylgja þannig fordæmi æðstu ráðamanna. Hann sér fyrir sér að slík krafa verði tekin til alvarlegrar skoðunar í komandi kjarasamningum.

„Mér finnst það alveg blasa við. Þetta fyrirkomulag virkar vel hjá embættismönnum ríkisins. Af hverju ætti það sama ekki að gilda á almennum launamarkaði?“ spyr Ragnar Þór.

Laun þingmanna, ráðherra, forseta Íslands og fleiri háttsettra embættismanna hækkuðu um tæplega fimm prósent í síðustu viku. Þingfararkaup hækkaði um rúmlega 60 þúsund krónur á mánuði og laun ráðherra um hátt í hundrað þúsund krónur. Vegna samninga sem fela í sér sjálfkrafa vísitölutengda launahækkun á hverju ári.

„Slík krafa myndi falla vel að okkar markmiðum um að tryggja kaupmátt. Það er alveg ljóst að atvinnulífið er ekki að axla sinn hluta af ábyrgðinni ef við skoðum arðgreiðslur stærri fyrirtækja og verðhækkanir og því verðum við að skoða alvarlega hvernig við getum náð okkar markmiðum.“

Ragnar segir eðlilegt að horfa til allra þeirra leiða sem hafi gefist vel. „Ráðamenn hafa náð fram verulegum kjarabótum undanfarin ár og því ósköp eðlilegt að almennir launamenn fylgi þeirra fordæmi i sinni kröfugerð.“