Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veltir því fyrir sér hvort rétt sé að ganga á það græna svæði sem Elliðaárdalurinn er með því að koma fyrir í honum 4.500 fermetra gróðurhvelfingu, eins og fyrirhugað er, þar sem rekin er verslun og önnur starfsemi. Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun hefur frumkvöðullinn að baki verkefnisins furðað sig á því hve auðvelt er fyrir andstæðinga þess að tefja fyrir því í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þar talað hæst gegn verkefninu.

Væri réttara að dreifa grænu svæðunum

„Nú ætla ég að tala um lungu höfuðborgarinnar, Elliðaárdalinn, sem er náttúru- og útivistarperla og eitt stærsta græna svæði höfuðborgarinnar,“ sagði Vilhjálmur í upphafi fyrirspurnar sem hann beindi til umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Hann spurði ráðherrann hvort honum þætti eðlilegt að verkefnið, sem væri vissulega grænt og jákvætt verkefni, ætti heima í Elliðaárdalnum.

Arkitektastofan sem hannaði Gardens by the Bay í Singapore, sem er öllu stærra í sniðum, kemur að verkefni ALDIN Biodome.

Hann segist styðja hugmyndina um að reisa gróðurhvelfinguna en telur að betra sé að koma upp slíku grænu svæði lengra frá öðrum grænum svæðum þar sem byggð er jafnframt þétt. „Þess vegna vil ég spyrja hæstvirtan umhverfis- og auðlindaráðherra hvort víðerni innan höfuðborgar séu mikilvæg og hafi ekki gríðarleg verndargildi,“ sagði Vilhjálmur og spurði hvort ekki þyrfti að fara varlega þegar svæði eins og Elliðaárdalurinn væru skipulögð undir bílastæði, verslunarrekstur og annað slíkt.

Þarf vilja Alþingis eða borgaryfirvalda til að friðlýsa

Guðmundur Ingi kvaðst í svari sínu sammála Vilhjálmi í því að græn svæði væru grundvallaratriði í þéttbýlum. „En þetta er eitt af þeim atriðum sem núna er verið að skoða í vinnu við landsskipulagsstefnu, það er hvernig beitta megi skipulagi í þágu lýðheilsu,“ sagði hann og benti á að finna megi græn svæði víðs vegar um borgina. „Ég tek það þó fram með Elliðaárdalinn að hann nýtur ekki friðlýsingar, hann er hverfisverndaður.“

Guðmundur vildi ekki taka afstöðu til þess hvort friðlýsingu á Elliðaárdalnum ætti að setja í forgang.
Fréttablaðið/Anton Brink

Vilhjálmur spurði ráðherrann þá hvort ekki væri rétt að beita sér fyrir friðlýsingu þessa merka svæðis í borginni. Guðmundur sagði að til að slíkt ætti að ganga í gegn þyrfti annaðhvort að liggja fyrir áætlun sem hefði farið í gegnum þingið eða vilji landeigenda og borgaryfirvalda til að friðlýsa. „En ég svo sem tek ekki sérstaka afstöðu til þess hvort að akkúrat þetta ætti að vera forgangsverkefni eða ekki,“ sagði hann að lokum.

Of auðvelt að tefja fyrir verkefninu í kerfinu

Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun kvaðst Hjördís Sigurðardóttir, frumkvöðullinn að baki verkefninu, verulega hugsi yfir þeim tíma sem ferlið hefur tekið. Verkefnið hefur verið í þróun í rúm fjögur ár. „Þetta kerfi er alveg rosalega seinvirkt. Þeir sem vilja tefja verkefni, hvort sem það er af pólitískum ástæðum eða vegna einhverra annarra hvata, geta bara gert það með því að vera alltaf á móti,“ sagði hún.

Deiliskipulag norðan Stekkjarbakka í útjaðri Elliðaárdals var samþykkt í borgarráði í júlí og breytingar á orðalagi í skilmálum skipulagsins vegna ábendinga Skipulagsstofnunar voru svo samþykktar í borgarráði á fimmtudaginn. Tillagan verður þó að fara fyrir borgarstjórn vegna þess að minnihluti borgarráðs, sem samanstendur af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, var á móti henni. Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins tóku undir með minnihlutanum.

„Ég er búin að standa í þessu í rúm fjögur ár núna og mitt aðalverkefni hefur verið að útskýra hvað þetta er, því það er hvergi til neitt nákvæmlega eins,“ heldur Hjördís áfram. Verkefnið kostar rúmlega 4,5 milljarða og er fjármögnun þess ekki í höndum borgaryfirvalda heldur einkaaðila.

Um er að ræða 4.500 fermetra niðurgrafnar gróðurhvelfingar þar sem verður fjölbreytt vistkerfi sem býður upp á nærandi upplifun, ræktunar- og verslunarrými, græna vinnuaðstöðu, aðstöðu fyrir jóga og fleira.