Neðri deild breska þingsins mun greiða atkvæði að nýju á mánudag um hvort boða eigi til þingkosninga þann 15. október næstkomandi. Tillaga þess efnis náði ekki tilskildum stuðningi á miðvikudagskvöld en tveir þriðju hlutar þingmanna þurfa að styðja tillöguna.

Þingmenn Verkamannaflokksins greiddu ekki atkvæði um tillöguna á miðvikudaginn af þeim ástæðum að ekki væri búið að samþykkja frumvarp sem ætlað er að koma í veg fyrir Brexit án samkomulags. Á mánudaginn ætti frumvarpið hins vegar að verða orðið að lögum og því hægt að endurtaka atkvæðagreiðslu um kosningar.

Boris Johnson forsætisráðherra hélt í gær ræðu þar sem hann stóð fyrir framan hóp af lögregluþjónum sem eru í þjálfun en hann notaði tækifærið og kynnti átak um fjölgun í lögreglunni.

Fréttaskýrendur voru almennt sammála um að ræðan hefði verið hin undarlegasta. Þá var ráðherrann gagnrýndur fyrir að hafa lögreglumennina í bakgrunni þar sem ræðan hefði verið mjög pólitísk.

Staðráðinn í því að Bretland yfirgefi ESB

Johnson sagðist enn staðráðinn í að Bretland yfirgæfi ESB þann 31. október næstkomandi. Ef það myndi ekki gerast, þyrfti einhver annar að taka við stjórninni. Fólk yrði að velja milli hans og Jeremys Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, til að fara á leiðtogafundinn í Brussel 17. október.

Þá svaraði Boris spurningu um hvort hann gæti lofað því að fara ekki til Brussel og biðja um frest, með því að frekar vildi hann liggja dauður úti í skurði. Frestun væri algerlega tilgangslaus og kostaði milljarð punda á mánuði. Hann vildi ekki svara því hvort hann myndi segja af sér kæmi til frestunar á Brexit.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa fundað sín á milli varðandi dagsetningu mögulegra kosninga. Eru uppi vangaveltur um hvort fresta ætti kosningum þar til frestur á viðræðum við ESB hafi fengist til að tryggja að Bretland gangi ekki samningslaust úr ESB 31. október.

Hefur varað Johnson við

Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, hefur varað Johnson við að hann geti ekki unnið kosningar ef flokkur hans fari gegn forsætisráðherranum. Tækist þeim hins vegar að mynda bandalag með skýrri stefnu yrðu þeir óstöðvandi.

Ekki bætti það stöðu forsætisráðherrans að Jo Johnson, bróðir hans, sagði í gær af sér sem þingmaður Íhaldsflokksins og ráðherra háskóla, vísinda og rannsókna. Jo hefur lýst yfir efasemdum um Brexit án samkomulags. Hann segist hafa verið í erfiðri stöðu að undanförnu þar sem tekist hafi á fjölskyldu- og þjóðarhagsmunir.