Helgi Hrafn Gunnars­son, þing­maður Pírata­flokksins, vill að Alþingi taki sig saman í andlitinu og fjarlægi ákvæði almennra hegningarlaga sem bannar sölu og framleiðslu á klámi úr lögunum.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í morgun hefur kyn­ferðis­brota­deild lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu efni á sam­fé­lags­miðlinum On­lyfans til skoðunar, sem mögu­leg sala og fram­leiðsla á klámi. Slík fram­leiðsla og sala er bönnuð sam­kvæmt 210.gr. al­mennra hegningar­laga.

„Það er ekkert í þessu á­kvæði sem á heima í nú­tíma­lög­gjöf. Á­kvæðið fjallaði í gamla í daga um barna­klám og annað slíkt en allt það hefur nú verið sett inn í aðra lög­gjöf eins og 210.gr. a) sem er næsta á­kvæði á eftir, þar er fjallað um barna­klám,“ segir Helgi.

„Kyn­ferðis­brota­kaflinn hefur þróast þokka­lega mikið í gegnum tíðina og það er ekkert lengur í þessu á­kvæði sem á að vera þarna. Að mínu mati má þetta á­kvæði fara í heild sinni,“ segir Helgi.

Siðgæði frá tímum þar sem samkynhneigð var ósiðleg

Helgi spyr jafnframt hvaða vanda­mál sam­fé­lagið sé að leysa með því að banna klám.

„Vill fólk banna klám bara af því það vill banna klám? Er það að reyna verja ein­hvern hóp? Eða er það að reyna verja sam­fé­lagið fyrir ein­hverjum á­hrifum? Hvert er mark­miðið Eða er það að reyna verja sið­gæði?“ spyr Helgi.

„Því höfum það alveg á hreinu það er á­stæðan fyrir því að þetta var sett. Það var til að verja al­mennt sið­gæði. Sið­gæði á tíma þar sam­kyn­hneigð þótti ber­sýni­lega ó­sið­leg og kyn­líf kvenna var því­líkt tabú. Þaðan kemur þessi grein og ekki úr neinni annarri átt. Hún er ekki femínsk, hún er ekki til að verja fórnar­lömb mansals og hún er ekki til þess að vernda börn,“ segir Helgi.

Ábyrgð löggjafans að breyta þessu

Helgi Hrafn segir það hlut­verk lög­gjafans að takast á við þetta enda lög­reglan bara að fram­fylgja lögum.

„Lög­reglunni er smá vor­kunn í þessu. Það er lög­gjafinn á­kveður þetta og ef lög­gjafinn þorir ekki að takast á við þetta, er of spé­hræddur til þess, finnst þetta ó­þægi­legt og við­kvæmt þá er það er það auð­vitað á­byrgð lög­gjafans. Lög­reglan á ekki að vera meta al­mennt sið­gæði í landinu hún á að fram­fylgja lögunum sem lög­gjafinn setur,“ segir Helgi að lokum.