Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem leiðir lista Samfylkingarinnar i Kraganum, segir Alþingiskosningar snúast um að fella núverandi ríkisstjórn svo hægt sé að setja saman umbótaríkisstjórn á Íslandi.

Þetta segir Þórunn í kosningaþætti Hringbrautar sem verður sýndur í kvöld.

Í fyrstu kosningavaktinni mæta þau Brynjar Níelsson í Sjálfstæðisflokknum, Þórunn Sveinbjarnardóttir í Samfylkingunni og Björn Leví Gunnarsson í Pírötum til að ræða allt það helsta fyrir Alþingiskosningar.

Helstu áherslumál Samfylkingarinnar eru betri lífskjör fyrir barnafólk, öryrkja og eftirlaunafólk sem og að fella núverandi ríkisstjórn. Flokkurinn hefur áður lýst því yfir að hann muni ekki fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

„Auðvitað búum við í góðu samfélagi en síðustu átta ár hefur ríkt það sem ég kalla kyrrstaða, Brynjar kallar það stöðugleika, í samfélaginu og nú þurfum við að grípa til aðgerða,“ segir Þórunn og kallar núverandi ríkisstjórn: „stjórn hins lægsta pólitíska samnefnara“.

Brynjar Níelsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björn Leví Gunnars­son verða í kosningaþætti Hringbrautar í kvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink