„Ég varpaði þessari hugmynd fyrst fram í tölvupóst­samskiptum milli þingmanna, ráðherra og skrifstofustjóra þingsins, fyrir réttum mánuði. Þá var ljóst að þrátt fyrir viðleitni þingsins væru verulegir annmarkar á þinghaldi með tilkomu samkomubanns,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem lagt hefur til að þingstörfin verði flutt í Hörpu.

Logi spurði hvort það hefði verið skoðað að nota tímabundið annan og stærri sal þar sem nægt pláss væri til að gera þær varúðarráðstafanir sem mælst er til.„Ég nefndi Hörpu í þessu sambandi. Það hefði verið tilvalið fyrir forseta að stökkva á þessa lausn og nýta sér þær sérstöku aðstæður sem eru fyrir hendi í fámennu landi og fáa þingmenn,“ segir Logi.

Hann beindi síðar erindinu til forsætisnefndar og bað fulltrúa Samfylkingar í nefndinni að fylgja málinu eftir.„Þar hafi hugmyndinni strax verið hafnað og vísað í að öryggisgæsla og atkvæðagreiðslur gætu verið flókið úrlausnarefni. Ég vísa öllu slíku á bug og tel að verandi komin um fimmtung inn á tuttugustu og fyrstu öldina væri slíkt einfalt mál. Ég hafði og hef enn áhyggjur af störfum löggjafans og stöðu lýðræðisins við þessar aðstæður,“ segir Logi aðspurður um ástæður tillögunnar.

Formaðurinn nefnir neyðarpakkana sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þingið. „Það er mikilvægt að sem flestir þingmenn geti farið vandlega yfir þá, bæði til að lagfæra frumvörpin en ekki síður til að sýna aðhald,“ segir Logi en fjöldatakmarkanir í þingsal hafa gert það að verkum að aðeins fáir þingmenn geta tekið þátt í umræðum í þingsal. Samtalið verði því óumflýjanlega takmarkaðra en ella um einhverjar stærstu efnahagsaðgerðir í sögu lýðveldisins.

Skrýtnar tímar kalla á skapandi hugsun á Alþingi

„Ég minni líka á að Alþingi þarf á einhverjum tímapunkti líka að veita heimildir fyrir öllum þeim útgjöldum sem þetta mun hafa í för með sér,“ bætir Logi við.Hann bendir á að ríkisstjórnin hafi hvorki óskað eftir aðstoð stjórnarandstöðunnar við mótun aðgerðapakka né veitt henni síbreytilegar bakgrunnsupplýsingar og sviðsmyndagreiningar.

„Eðlilegra þinghald gæfi okkur þá að minnsta kosti möguleika á að kalla eftir þeim í þingsal. Stærri þingsalur myndi líka þýða minni röskun á þingstörfum. Jörðin mun halda áfram að snúast eftir þennan tímabundna skell og það er mikilvægt að við sinnum fleiru en bráðaaðgerðum og það er full nauðsyn á að horfa örlítið fram fyrir tærnar á sér og jafnvel líta til framtíðar,“ segir Logi.

Fyrst hugmyndinni hafi verið hafnað þurfi hins vegar að laga verklagið að því þrönga rými sem þinghúsið bjóði upp á. Það þýði takmarkað þinghald sem skerði óneitanlega þau réttindi sem stjórnarskráin tryggi þingmönnum til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Af þeim sökum sé rétt að takmarka störfin við allra nauðsynlegustu mál tengd COVID-faraldrinum en leitast jafnframt eftir því að gefa þingmönnum færi á að ræða stöðuna almennt og sinna eftirlitshlutverki sínu með fyrirspurnum til ráðherra.

„Þetta er bagaleg staða, því ef fólk hefði borið gæfu til að hugsa aðeins meira skapandi og sýna ögn meiri víðsýni gæti Alþingi sinnt störfum sínum og skyldum miklu betur á þessum skrítnu og erfiðu tímum,“ segir Logi.

Fréttablaðið/Ernir