Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sendi fyrirspurn á Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í dag varðandi blóðmerahald á Íslandi. Um er að ræða hrossahald til blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Ágúst Ólafur spyr ráðherrann hver tilgangur blóðmerahalds sé og hversu margir einstaklingar og fyrirtæki stundi það á Íslandi.

  1. Hvað er blóðmerahald og hver er tilgangur þess?
  2. Hve margir einstaklingar og fyrirtæki stunda blóðmerahald á Íslandi?
  3. Hver er veltan af slíkri starfsemi?
  4. Hve margar blóðmerar hafa verið notaðar í þessum tilgangi af meraeigendum og líftæknifyrirtækjum undanfarin 10 ár, skipt niður á einstök ár?
  5. Hvað er gert við folöld blóðmera?
  6. Hvernig uppfyllir blóðmerahald lagaákvæði um dýravernd og við hvaða réttarheimild er stuðst?
  7. Í hvaða Evrópuríkjum hefur blóðmerahald verið aflagt?

Fyrirspurning birtist á vef Alþingis í dag.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill fá svör um blóðtöku á fylfullum hryssum.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Telur það brjóta gegn lögum um dýravelferð

Árni Stefán Árnason, lögfræðingur sem sérhæfir sig í dýravernd, birti nýlega grein í Kjarnanum, um svokallað blóð­mera­hald á Íslandi í tengslum við líf­tækniiðn­að, sem hann segir skipu­lega haldið leyndu fyrir almenningi af hags­muna­að­ilum og stjórn­völd­um. Árni Stefán segir blóðmerahald brjóta gegn lögum um velferð dýra.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, svaraði Árna í grein á sama miðli og sagði grein Árna Stefáns vera upp­fulla af hálf­sann­leik, upp­spuna og róg­burði, þar sem vegið væri að bænd­um, dýra­lækn­um, dýra­vernd­ar­sam­tök­um, ráð­herra, eft­ir­lits­að­ilum sem og líf­tækni­fyr­ir­tækjum.

Efni úr blóði hryssna notað til lyfjaframleiðslu

Starfsemin sem um ræðir snýst um að nýta efnið PMSG(e.Pregnant Mare Serum Gonadotropin), sem finnst í blóði fylfullra hryssna, sem hægt er að nota til að örva þroska eggbúa í öðrum dýrategundum en hrossum, einkum í svínarækt. Slík blóðtaka hefur farið fram á Íslandi frá árinu 1979 en ekki eru fyrirliggjandi opinber gögn um umfang framleiðslunnar á seinni árum.

Ætla má að verðmæti hryssublóðs sé umtalsvert en það fæst ekki gefið upp vegna viðskiptahagsmuna. Hrossabændur geta þrefaldað tekjur sínar með því að selja blóð fylfullra mera til framleiðslu á frjósemislyfjum samkvæmt Arnþóri Guðlaugssyni í grein Morgunblaðsins frá árinu 2015.

Margir bændur stundað blóðtöku sem fyrirtækið Ístek framleiðir frjósemislyf úr fyrir svína- og nautgriparækt. Dýralæknir á vegum Ísteka annast ávallt blóðtökuna.

Alls hafa 92 starfsstöðvar tilkynnt um starfsemi með blóðtökuhryssur til Matvælastofnunar en Ísteka hefur leyfi stofnunarinnar til að taka blóð úr fylfullum hryssum til vinnslu afurða. Matvælastofnun hefur eftirlit með fóðrun og aðbúnaði blóðtökuhryssna Ísteka ber ábyrgð á sérstöku eftirliti með blóðtökunni sjálfri.

„Afvelta fljótlega eftir blóðtöku“

Frá árinu 1979 voru gerðar tilraunir hérlendis á vegum fyrirtækisins G. Ólafsson til blóðsöfnunar úr fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu. Blóð var tekið úr um 80 hryssum norður í Skagafirði til að byrja með en ári seinna var tekið blóð úr 680 hryssum víðs vegar um landið. Árið 1981 var blóð tekið úr liðlega 1000 hryssum.

Í bréfi frá Ráðanautafundi á Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum frá árinu 1982 kemur fram að mikið af ódýru blóði frá Argentínu hafi verið á Evrópumarkaðinum. Kaupanda blóðsins hafi líkað blóðið frá Íslandi „en til þess að halda markaðnum verðum við að halda vel á spöðunum.“

Í sama bréfi er sagt frá áhrifum blóðtakanna á hryssur.

„Yfirleitt verður þeim lítið um. Sumar vilja þó híma dálítið fyrst á eftir og taka ekki í jörð. Einstaka hryssur virðast kenna einhverra ónota, sem lýsa sér í því að þær leggjast, velta sér yfir hrygg og liggja um hríð marflatar. Sérstaklega var þetta áberandi þurrviðrasumarið 1980. Við höfum séð þess nokkur dæmi um að hryssur hafi orðið afvelta fljótlega eftir blóðtöku,“ segir í bréfinu.