Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til á fundi skóla- og frístundaráðs í gær að viðhaldsmál Hagaskóla verði á dagskrá næsta fundar ráðsins. Þá fer hún fram á að skýrsla verkfræðistofunnar Mannvits um húsnæðið frá því í apríl síðastliðnum verði lögð fram.

Hún segir það vekja furðu að málið hafi ekki verið sérstaklega á dagskrá í gær í ljósi frétta af myglu í húsnæðinu. Hluti nemenda stundar nám í húsnæði Hótels Sögu á meðan ein álman er lokuð.

„Svona alvarlegt mál hefði þurft að taka fyrir án tafar,“ segir Marta. Þá sé dæmi um að starfsmaður skólans hafi farið í veikindaleyfi sem rekja mætti til myglu. „Það er líka ámælisvert að árið 2019 voru engin sýni um myglu tekin þegar fjöldi nemenda og starfsmanna Hagaskóla sýndi einkenni sem bentu til að skólahúsnæðið væri heilsuspillandi.“

Marta segir að hún viti um skýrslu Mannvits en hún hafi aldrei verið lögð fram. „Þessi skýrsla hefði þurft að liggja fyrir. Ég hef ekki haft aðgang að henni og hef því ekki lesið hana en að öllum líkindum varpar hún veigamiklu ljósi á alvarlegt ástand skólahúsnæðisins.“