Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnir að því að leggja fram frumvörp um breytingar á stjórnarskrá í nóvember. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag fjallar Katrín um tvö þeirra ákvæða sem eru á teikniborði formanna stjórnmálaflokkanna sem hafa reglulega fundað um stjórnarskrárbreytingar á kjörtímabilinu.

„Það er alveg ljóst í mínum huga að það er mjög mikill og ríkur vilji í samfélaginu til að það sé fjallað um auðlindir í stjórnarskrá en okkur hefur ekki lánast að finna lendingu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið. Hún vísar til þess að umræða um stjórnarskrárákvæði um auðlindir hafi staðið síðan á sjöunda áratugnum.

„Ég myndi allavega telja að það sé mikilvægt að fá efnislega umræðu um svona ákvæði í þinginu: Að við séum ekki bara að ræða ferlið, eins og við höfum verið að ræða mjög mikið, heldur efnisatriðin sjálf,“ segir Katrín.

Ákvæðið sem formennirnir hafa rætt felur í sér „knappar og skýrar meginreglur sem bjóða ekki upp á neina möguleika á gagnályktunum og túlkunarvandkvæðum“, eins og Katrín lýsir því í greininni. Hún segist sannfærð um að knappt ákvæði sé farsælli leið en ákvæði sem felur í sér upptalningu á þeim auðlindum sem njóta eigi verndar.

„Ég er algerlega sannfærð um að rétta leiðin í svona ákvæði er einmitt ekki að fara í upptalningu heldur tala um þetta út frá grundvallargildunum, það er að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu í þjóðareign. Ég held að ef við ætlum í einhverja upptalningu þá séum við bara að fara að elta skottið á sjálfum okkur,“ segir Katrín.

Það sama gildi um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda. Mun eðlilegra sé að löggjafinn taki afstöðu til þess hverju sinni með hliðsjón af mismunandi auðlindum og ólíkri nýtingu þeirra.

Í greininni fjallar Katrín líka um fyrirhugað ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd. Í því er meðal annars vikið að almannarétti sem oft hefur verið deilt um, ekki síst vegna hagsmuna landeigenda. „Þarna verður bara að fara bil beggja,“ segir Katrín en aðspurð um virkni svona ákvæðis í stjórnarskrá segir Katrín að almannaréttur sé nú þegar tryggður í náttúruverndarlögum. „Það var mikið tekist á um hann við síðustu breytingar á þeim lögum, þannig að þetta hefur verið umdeilt og stjórnarskrárákvæði myndi tryggja ákveðin grunngildi um þennan rétt til framtíðar, þó að svo sé hann útfærður nánar í lögum. Það er til dæmis eðlilegt að mögulegt sé að takmarka umferð um viðkvæm svæði en meginreglan verður frjáls för fólks,“ segir Katrín.

Stjórnarskrárbreytingar eru ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar en Katrín segist hafa hug á því að leggja fram frumvörp sem byggja á vinnu formannanna, sem þingmaður, annaðhvort ein eða ásamt öðrum formönnum.

„Ég átta mig mjög á því að það eru skiptar skoðanir meðal stjórnmálaleiðtoganna um stjórnarskrárbreytingar og þær eru líka mismunandi eftir ákvæðum. Ég á því ekki von á því að þetta verði eitt frumvarp heldur nokkur,“ segir Katrín.

Náist góð stemning fyrir breytingum megi gera ráð fyrir lokaafgreiðslu frumvarpa á stuttu þingi í ágúst á næsta ári áður en þing verður rofið og boðað til kosninga.

Grein Katrínar er á síðu 16 í blaði dagsins.