„Kröfur á hið opinbera geta ekki verið leyndarmál,“ segir Sjálfstæðismaðurinn Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis. Hann hefur farið fram á að boðað verði til aukafundar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að ræða stöðuna á nýjum Herjólfi og Landeyjahöfn.

Skipasmíðastöðin sem vinnur að smíði Herjólfs í Póllandi, Crist S.A. hefur krafist viðbótargreiðslu vegna smíðinnar, sem mun vera á lokastigi. Prófunum átti að ljúka um næstu mánaðamót. Fram hefur komið að Vegagerðin telur engan fót fyrir viðbótargreiðslunni, sem sé „umtalsverð“ upphæð. Um hana hafi ekki verið kveðið á um í samningi um verkið. Ekki hefur verið gefið upp hvað krafan er há. Við það getur Vilhjálmur ekki unað. Um sé að ræða kröfu á skattgreiðendur.

Vilhjálmur segir í samtali við Fréttablaðið að samgöngur séu mikilvægastar hverju samfélagi. Þær séu velferðarmál númer eitt. Hann vill þess vegna vita af hverju krafan er tilkomin. „Þurfum við að bregðast við og finna fjármagn eða treysta á gamla skipið í lengri tíma? Við þurfum svör við þessu.“

Vegagerðin greindi frá því fyrir helgi að kröfu skipasmíðastöðvarinnar hafi verið hafnað. Vegagerðin hafi boðið stöðinni að ljúka greiðslum samkvæmt samningi, fá skipið afhent en vísa ágreiningi um viðbótargreiðslur til þriðja aðila til úrlausnar.

Landeyjahöfn er enn lokuð, þó mars sé að verða liðinn. Vilhjálmur vill líka skýringar á þessu. Hann segir að samkvæmt samningi við verktaka hafi höfnin átt að vera opin í mars, jafnvel í febrúar. „Er verktakinn ekki að uppfylla samninginn eða gerði samningurinn ekki nægar kröfur um afkastagetu verktakans?“ spyr Vilhjálmur.

Hann segir að Herjólfur eigi að geta gengið til og frá Landeyjahöfn frá mars og fram í október. Hann segir að það væri ekkert stórmál ef afhending á nýju ferjunni myndi tefjast, svo fremi sem Herjólfur sigli til Landeyjahafnar.

Vilhjálmur segist hafa fengið jákvæð viðbrögð við fundarbeiðninni og vonast til að fundurinn geti farið fram snemma á fimmtudag.