Fjölskylduráð Múlaþings var klofið þegar kom að tillögu Jóhanns Hjalta Þorsteinssonar um að endurskoða heimsóknir á vegum skólastofnana Múlaþings í trúfélög og heimsóknir skólabarna. Fjölskylduráð fól fræðslustjóra að vinna reglur um samskipti skólastofnana Múlaþings og trúfélaga.

„Þessar heimsóknir eru til þess fallnar að skapa spurningar meðal skólabarna, af hverju sumir mæti ekki í kirkju á aðventu. Mér finnst því tilvalið að skólarnir standi ekki að þessu heldur foreldrarnir. Með því færirðu um leið ábyrgðina á trúarlegu uppeldi í hendur foreldranna í stað skólanna og sveitarfélaganna,“ segir Jóhann Hjalti, aðspurður hvað liggur að baki bókuninni.

„Þetta er tilraun til þess að koma í veg fyrir að barn lendi utanveltu í bekkjarsamfélögum. Þótt foreldrarnir ráði hvort börnin fari með bekkjarfélögum sínum eða ekki þegar farið er í slíkar heimsóknir, þá er alltaf möguleiki á að það kvikni spurningar hjá samnemendum um af hverju einhver aðili fór ekki í kirkju,“ segir Jóhann og heldur áfram:

„Trúarbragðafræði getur vel farið fram inni í kennslustofu og ég treysti kennurum vel til þess. Ég tel óþarft að setja þetta í hendur fulltrúa trúarfélaga sem eru misjafnir eins og þeir eru margir.“

Hann bendir á að hlutfall þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna í sveitarfélaginu sé lægra en landsmeðaltalið.

„Hlutfall íbúa Múlaþings sem eru í þjóðkirkjunni er lægra en landsmeðaltal. Það eru stórir hópar hérna af kaþólskum uppruna og þá er skrýtið að senda þau í lútherska kirkju. Svo er líka stór hópur sem er utan trúfélags.“

Hann segir að það hafi ekki komið honum óvart að niðurstaðan væri klofin.

„Þetta fór eins og ég átti von á. Þetta var í takti við flokkslínurnar hérna í Múlaþingi,“ segir Jóhann.