Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, hefur beðið um heildarendurskoðun á þeirri prótókólhefð innan Mannréttindadómstóls Evrópu að forseti dómsins taki við heiðursdoktorsnafnbót við háskóla aðildarríkjanna, sé eftir því leitað. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurnum Fréttablaðsins.

Hann segir sex af sjö forsetum dómstólsins hafa tekið við slíkum heiðursdoktorsnafnbótum og sumir fleirum en einni. Forveri hans í embætti, Linos-Alexandre Sicilianos, tók síðast við slíkri nafnbót frá háskóla í Rúmeníu í fyrra.

„Þetta var bakgrunnur þeirrar erfiðu ákvörðunar sem ég þurfti að taka,“ segir Róbert.

Hann segir nafnbætur þessar vera veittar forseta dómsins og fela þannig í sér viðurkenningu á starfi dómstólsins sem stofnunar og í þeim skilningi hafi hann veitt heiðursdoktorsnafnbótinni viðtöku, að vandlega athuguðu máli. Róbert segir að auk hefðarinnar hafi tækifærið til að heimsækja skólann og tala þar máli akademísks frelsis og tjáningarfrelsis, einnig vegið þungt.