„Mín von stendur til þess að við þurfum ekki aftur að halda blaðamannafund um það að við ætlum að snúa bökum saman í þrjár vikur í viðbót, að við ætlum að halda áfram að herða, að við ætlum að taka síðasta slaginn eina ferðina enn,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag þar sem mælt var fyrir frumvarpi um heimildir til að beita harðari aðgerðum á landamærum.
Staðan aldrei verið betri
Staðan í faraldrinum er betri núna en nokkru sinni fyrr, að mati Svandísar:
„Það eru afar fáir á sjúkrahúsi, það eru mjög fáir alvarlega veikir. Við erum komin vel af stað í bólustetningum. Þessi vika er sennilega metvika í bólusetningum og sú næsta enn þá fleiri bólusettir þannig að þannig horfi maður utan frá á faraldurinn og framgang hans, þá held ég að okkur sé óhætt að segja að staðan er núna betri en hún hefur nokkru sinni verið. Þess vegna þurfum við að fara af varfærni inn í allar ákvarðanir sem lúta að því að hindra fólk í sínu daglega lífi eða svipta það frelsi sínu á einhvern hátt,“ sagði Svandís.
Öll sóttvarnabrot rakin til landamæra
Svandís sagði að öll sóttvarnabrot að undanförnu hafi mátt rekja til landamæranna.
„Alls hafa 118 mál komið til kasta lögreglu vegna brota á sóttkví og einangrun frá því að faraldurinn breiðist út þar af 24 slík brot á þessu ári. Öll þessi mál tengjast landamærum. Samkvæmt upplýsingum frá smitrakingarteymi sóttvarnalæknis og almannavarna greindust, á tímabilinu 1. febrúar til 1. apríl síðastliðinn, 202 virk covid-19 smit á Íslandi. Af þeim greindust 105 á landamærum og 97 innanlands og rakning inn á þessum smitum hefur leitt í ljós að öll covid-19 smitin á þessu tímabili má rekja til smita frá landamærum með einum eða öðrum hætti,“ segði Svandís.
„Með hliðsjón af þessu er talið rétt að bregðast við smitum sem berast inn í samfélagið frá landamærum með þessari lagasetningu sem hér er rædd þar sem núgildandi ráðstafanir á landamærum eru ekki taldar duga til að hefta útbreiðslu covid-19 í samfélaginu.“
Svandís sagði að með frumvarpinu væri verið að takmarka sérstaklega ferðalög hingað til lands frá svæðum sem eru skilgreind hááhættusvæði. Þá væri dómsmálaráðherra falin heimild til að setja reglugerð sem bannar útlendingum sem dvalið hafa á slíkum svæðum að koma til landsins.
„Með beitingu þessa úrræðis er því ekki aðeins unnt að minnka líkur á smiti innanlands heldur jafnframt að draga úr álagi á landamærum og í sóttvarnarhúsum,“ sagði Svandís.
„Það er von mín að með afgreiðslu þessa frumvarps náum við utan um þann vanda sem okkur er á höndum en ég vil um leið segja að þær ráðstafanir sem við höfum hingað til beitt á landamærum eru þannig að horft er til þeirra um lönd og álfur.“
Svandís nefndi þar sem dæmi ákvarðanir yfirvalda um að krefjast krefjast neikvæðs PCR prófs við landamæri, að prófa fyrir covid-19 tvisvar með fimm daga sóttkví á milli, að nota sóttvarnarhús eins og gert hafi verið frá því í byrjun mánaðarins og að auka eftirlit eins og nokkurs er kostur.
Smitrakningarteymi verðskuldi fálkaorðu
„Stóra málið, sem hefur forðað okkur frá því í íslensku samfélagi að beita mjög hörðum heildstæðum aðgerðum, er sú staðreynd að við erum með mjög öfluga smitrakningu. Þar held ég að séu margir sem eiga fálkaorður skildar og ekki síður sú öfluga rakning sem hefur átt sér stað á vegum Íslenskrar erfðagreiningar,“ sagði Svandís og bætti við að hvergi væri þetta notað í eins ríkum mæli eins og á Íslandi.
„Mín von stendur til þess að með því að gera þessar ráðstafanir sem hér eru lagðar til, með því að halda áfram í þeirri þeim góða gangi í bólusetningu sem við erum að sjá þá séum við einfaldlega farin að horfa til þess tíma að samfélagið fari að virka hér eins og við þekkjum það best og að við getum aflétt öllum sóttvarnaráðstöfunum innanlands ekki síðar en um mitt sumar,“ sagði Svandís að lokum.
Umræður um frumvarpið standa enn yfir á Alþingi. Málinu verður vísað til nefndar að lokinni fyrstu umræðu en gert er ráð fyrir að lokaatkvæði verði greidd um málið í kvöld og það gert að lögum.