Félag ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga (Fíh) og samninga­nefnd ríkisins funda hjá ríkis­sátta­semjara út vikuna í hópum til að kanna grund­völl fyrir því að ná saman um nýja kjara­samninga. Samningar hjúkrunar­fræðinga hafa verið lausir í rúmt ár en í lok síðasta mánaðar var kjara­samningur sem samninga­nefnd Fíh hafði undir­ritað felldur í at­kvæða­greiðslu fé­lags­manna.

„Þegar kjara­samningur er felldur þá bara byrjum við á núlli,“ segir Guð­björg Páls­dóttir, for­maður Fíh, í sam­tali við Frétta­blaðið. Þó liggi nú ýmis at­riði fyrir sem al­menn sátt hefur náðst um á vinnu­markaðinum frá því að samninga­við­ræður hófust fyrir rúmu ári síðan, til dæmis um styttri vinnu­viku og fleira. „Við þurfum svo bara að sjá hvort það verði hluti af okkar samning eða ekki. Það á eftir að koma í jós,“ segir hún.

Nefndirnar funduðu hjá ríkis­sátta­semjara í gær og var það sjöundi fundurinn síðan fé­lags­menn Fíh felldu fyrri kjara­samninginn. Þá eiga þær annan fund í dag klukkan eitt og funda á­fram alla dagana í þessari viku.

En er Guð­björg bjart­sýn á að ná samninga­nefndirnar nái saman um nýjan samning? „Veistu ég bara veit það ekki. Það er náttúru­lega bara þriðju­dagur í dag og það veltur bara svoldið á því hvað kemur út úr þessari viku,“ segir hún. „Þannig ég get eigin­lega ekki sagt neitt nema bara að við göngum auð­vitað til verksins með opinn huga. Það þýðir ekkert annað.“

Könnun var gerð meðal fé­lags­manna Fíh eftir að þeir felldu kjara­samninginn og kom í ljós að launa­liðurinn, það er þau grunn­laun sem til­tekin voru í samningnum, voru það sem flestir voru ó­sáttir með. Nokkur um­ræða skapaðist þá í kringum laun hjúkrunar­fræðinga eftir að laun þeirra hjúkrunar­fræðinga sem sinntu CO­VID-19 sjúk­lingum á göngu­deild lækkuðu milli mánaða vegna þess að vaktar­á­lags­auki var tekinn af þeim. Grunn­laun hjúkrunar­fræðings sem byrjar hjá Land­spítala eftir fjögurra ára nám eru um 415 þúsund krónur á mánuði.

„Okkur fannst nú ekki þurfa far­aldurinn til að menn áttuðu sig á mikil­vægi stéttarinnar og ég hef ekki viljað tengja CO­VID við kjara­samningana en jú, það náttúru­lega svo­sem gerði mikil­vægi okkar lík­lega sýni­legra fyrir al­menningi og vonandi stjórn­völdum líka,“ segir Guð­björg. „En það er bara eitt­hvað sem mér finnst hafa legið í augum uppi mjög lengi og það eru til skýrslur og gögn og fleira sem sýna fram á þetta. Meira að segja skýrsla ríkis­endur­skoðunar frá 2017.“

„Þannig að það er náttúru­lega löngu kominn tími til að láta ekki orðin ein duga hjá yfir­völdum heldur gera eitt­hvað í málinu,“ segir hún að lokum.