Bjarni Bene­dikts­son var gestur í Kast­ljósi ríkis­sjón­varpsins í kvöld. Þar var farið yfir víðan völl og meðal annars ræddar erjur innan Sjálf­stæðis­flokksins vegna þriðja orku­pakkans auk skipunar nýs dóms­mála­ráð­herra. Þar staðfesti Bjarni að nýr ráðherra verði kynntur í byrjun september en vill ekki gefa upp hver það verður.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag hefur verið boðað til ríkisráðsfundar þann 6. september næstkomandi. Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir og Birgir Ár­manns­son hafa verið sterk­lega orðuð við sæti ráð­herra.

Hafi verið í góðu bandi við flokks­með­limi vegna orku­pakkans

„Við höfum haldið eitt­hvað um sjö­tíu opna fundi um málið síðustu mánuði sem ég hef verið á,“ segir Bjarni og nefnir að því leytinu til telji hann sig hafa verið í góðu sam­bandi við flokks­með­limi.

„Flokkurinn er opinn fyrir skoðana­skiptum og þannig hefur þessi um­ræða gengið fram. Þetta mál þolir vel um­ræðu og þolir vel átök ef það er það sem þarf til að koma sjónar­miðum á fram­færi. Flokkurinn hefur oft í sögunni tekist á um mál, án þess að það sé talað um klofning,“ segir Bjarni meðal annars.

Spurður út í af­stöðu Morgun­blaðsins og af­stöðu margra gall­harða Sjálf­stæðis­manna segist Bjarni ekki telja að þar með sé verið að grafa undan stöðu sinni sem for­maður.

Hverjir eru að berjast gegn þér í flokknum?

„Þú kemur mér í opna skjöldu með því að tala um það að barist sé gegn mér í flokknum,“ segir Bjarni og segist spurður ekki taka á­rásunum vegna málsins per­sónu­lega. „Þú spyrð hverjir eru þetta en ég er ekkert með svarið við því hér,“ segir Bjarni.

Hann segir flokkinn hafa komið sér saman um stefnu­mál á lands­þingi sem nú sé verið að vinna að. Hann bendir þó á að í þriggja flokka sam­starfi sé erfiðara að vinna saman að ýmsum málum. Hann segir flokks­forrustuna ekki gera lítið úr and­stöðunni við orku­pakkann.

„Við höfum verið með­vituð um þessi sjónar­mið. At­riði sem snúa að stjórnar­skránni til dæmis, um efnis­legt inni­hald málsins. Þetta hefur verið til skoðunar á þinginu í mjög mörg ár. Það er at­hyglis­vert hvað þessi um­ræða fer hátt núna, því þetta mál var til með­höndlunar í fyrri ríkis­stjórn,“ segir Bjarni.

Hann segist sam­mála því að það skipti máli að yfir­ráð yfir auð­lindum verði ekki gefin frá Ís­lendingum. Hann segir spurður að það liggi ekki á að sam­þykkja pakkann nú. „Okkur hefur ekkert legið mikið ár, við höfum tekið mörg ár í að ræða þetta mál og þetta hefur verið inn­leitt í skrefum.“

Hefur ekki á­hyggjur af könnunum

Bjarni segist ekki hafa á­hyggjur af könnunum á miðju kjör­tíma­bili. „Kannanir inn á miðju kjör­tíma­bili segja nú af­skap­lega lítið,“ segir Bjarni og tekur dæmi af fylgi Pírata á síðustu kjör­tíma­bili.

Spurður hvort Sjálf­stæðis­flokkurinn sé að breytast segist Bjarni telja að stjórn­mál á Ís­landi hafi breyst. „Það er nær­tækt að benda á það hve margir nýir stofnaðir flokkar eru á þingi,“ segir Bjarni.

„Það er rétt við höfum ekki stuðning sem við höfðum eitt sinn mestan. En við verðum auð­vitað að líta í kringum okkur og skoða hvað er að gerast,“ segir Bjarni og bendir á að Sam­fylkingin hafi einnig mælst með lægra fylgi en áður. Hann vill hins­vegar sækja meira fylgi og telur flokkinn í mál­efnan­legri stöðu til að gera það.

Tók sér frest í sumar til að ákveða hver verður ráðherra

Bjarni segist spurður ekki vilja til­kynna hver það verður sem til­kynntur verður sem nýr dóms­mála­ráð­herra. „Þór­dís er að sinna öðrum mála­flokki sem hún vill fylgja betur eftir,“ segir Bjarni.

„Ég hef ein­fald­lega á­kveðið að gefa mér þann tíma sem að þessar að­stæður hafa kallað á og hlusta á bæði flokks­menn og ekki síður þing­flokkinn. Það hastaði ekkert að setja nýja mann­eskju í ráðu­neytið,“ segir Bjarni.

„Ég hyggst gera til­lögu í þing­flokknum um nýjan dóms­mála­ráð­herra áður en nýtt þing hefst núna í septem­ber og það væri þá hægt að nýta ríkis­ráðs­fundinn sem boðaður hefur verið til í septem­ber til að klára form­leg­heitin í því efni.“

Hann segist ekki velta því fyrir sér að kalla til utan­þings­ráð­herra. Það geti verið rétt­lætan­legt við á­kveðnar að­stæður en ekki sé á­stæða til þess nú. Spurður hvort að Sig­ríður Á Ander­sen mæti að nýju, segir Bjarni að hún njóti fulls trausts.

„Núna ertu að stilla upp fyrir mér val­kostunum. Veistu hvað, ég skal vera alveg opinn með það að upp­haf­lega stóð til að ljúka skipun nýs ráð­herra fyrr í sumar. Svo leið mér ein­fald­lega bara þannig að ég vildi taka mér lengri tíma,“ segist Bjarni og segist spurður hafa verið sáttur með það.