Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 19. febrúar 2021
23.00 GMT

Snæfríður dvelur nú á suðurhluta Tenerife ásamt eiginmanni og þremur dætrum en jólaferðalag þessarar akureyrsku fjölskyldu varð óvænt að fjögurra mánaða dvöl í bænum El Médano sem fjölskyldan þekkir vel eftir að hafa búið þar veturinn 2018 til 2019.

Það var árið 2013 þegar yngsta dóttirin var nýkomin til sögunnar að fjölskyldan fór í fyrstu Kanaríferðina og síðan hefur í raun ekki verið aftur snúið.

„Það var vetur á Akureyri og ég með þrjú lítil börn sem voru sífellt blaut í fæturna í snjónum. Mig dreymdi um að komast með fjölskylduna í sól í fæðingarorlofinu en maðurinn minn var fljótur að benda mér á að við hefðum ekkert efni á slíku ferðalagi,“ útskýrir Snæfríður sem dó þó ekki ráðalaus og skráði sig á íbúðaskiptasíðu og tókst þeim að skipta við fjölskyldu á Fuertaventura, einni kanarísku eyjanna.

„Við vorum í framhaldi í fjórar vikur á Fuertaventura en fyrir þá ferð vissi ég ekkert um Kanaríeyjar,“ segir Snæfríður sem upp frá þessu hefur notast mikið við íbúðaskipti og bæði skrifað handbók fyrir þá sem hafa áhuga á að reyna fyrir sér í þeim efnum og haldið námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands.

„Áður en ég kynntist manninum mínum ferðaðist ég fullt. Ég var au-pair í Þýskalandi, bjó um tíma í Frakklandi og fór í háskólanám í Noregi. Ég var svo líka í skemmtilegum störfum sem kröfðust þess að ég ferðaðist töluvert. Svo þegar börnin komu til sögunnar minnkuðu ferðalögin og peningarnir fóru í annað eins og gengur og gerist.“


Harkaleg áminning

Það voru ekki aðeins snjóþyngsli vetrarins 2013 og kaldir og blautir barnsfætur sem kveiktu ævintýraþrá þeirra hjóna heldur voru þau harkalega minnt á alvöru lífsins.

„Það árið missti eiginmaður minn tvo vini á besta aldri. Annar lést úr veikindum og hinn af slysförum og það kveikti ákveðna hugsun hjá okkur og spurningar um það hvernig við vildum haga lífinu. Fráföll þeirra voru ákveðin áminning um að allt er í lífinu hverfult,“ segir hún.

Þau heilluðust af Kanaríeyjum og hafa síðan bara viljað vera þar.

„Ég hef enga þörf lengur fyrir að sjá allan heiminn. Þegar maður kemur svona oft á sama staðinn fer maður að kafa dýpra í menninguna og þessar eyjar eru svo fjölbreyttar.

Hjónin ásamt dætrunum Bryndísi Brá 7 ára, Ragnheiði Ingu 13 ára og Margréti Sóleyju 11 ára. Bók Snæfríðar má finna á vefsíðunni lifiderferdalag.is.

Þetta er náttúrlega syðsti punktur í Evrópu og fyrst fórum við hingað til þess að fá tilbreytingu frá vetrinum en nú er það fleira sem við sækjumst eftir. Við höfum kynnst góðu fólki sem er með svo skemmtilega sýn á lífið og ólíka því sem maður hafði áður kynnst. Það er svo gaman að sjá að hægt sé að lifa lífinu öðruvísi en hjá þessu fólki er vinnan ekki endilega í forgangi. Ég var svo hissa fyrst þegar ég lenti í boðum þar sem enginn spurði hvað ég ynni við. Á Íslandi er maður alltaf skilgreindur út frá starfi manns og ef það er ekki nógu spennandi þá nennir liggur við enginn að tala við þig,“ segir Snæfríður í léttum tón.

„Hér er fólk að spá í allt öðru, fólk talar um mat, vín og hreyfingu og svo kemur vinnan kannski upp löngu seinna. Lífsgæðakapphlaupið er ekki eins áberandi og það er alltaf fiesta. Þessi lífstaktur á einfaldlega vel við mig.“

Spurning um forgangsröðun

Snæfríður og eiginmaður hennar, Matthías Kristjánsson eru bæði sjálfstætt starfandi og geta þannig raðað verkefnum upp svo hægt sé að dvelja hluta þess ytra.

„Maðurinn minn er húsasmíðameistari, en á meðan við erum erlendis vinnur hann við þýðingar, við að texta sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Starf smiðsins þyngist verulega yfir vetrartímann, enda oft snjóþungt fyrir norðan svo það hefur reynst honum vel að skipta um starfsvettvang þessa þyngstu mánuði.“

Snæfríður hefur starfað við fjölmiðla um árabil og hafa lesendur mögulega séð hana undanfarið í fréttum RÚV frá Tenerife eða í ferðaþættinum Vegabréf á N4.

„Ég hef einbeitt mér að ritstörfum undanfarið,“ segir Snæfríður sem viðurkennir að síðasta ár hafi tekið á enda hefur hún mikið skrifað greinar og bækur um ferðalög sem lítið hefur verið um hjá heimsbyggðinni.

Snæfríður og Matthías eru bæði sjálfstætt starfandi og geta því skipulagt veturinn að miklu leyti sjálf og kjósa nú í annað sinn að verja honum syðra

Hún segir þau mikið spurð að því hvernig þau hafi efni á því að dvelja svo mikið ytra.


„Þetta er alltaf spurning um forgangsröðun, innkomu og útgjöld. Við höfum verið dugleg við að stramma útgjöldin af, til dæmis með því að nota íbúðaskipti. Núna erum við hér í fjóra mánuði en af því eru fimm vikur í íbúðaskiptum. Það eru þó engir Kanaríbúar í okkar húsi núna, heldur eru þetta svokölluð punktaskipti. Það eru svo margar leiðir til þess að gera íbúðaskipti og skiptin þurfa ekki að gerast á sama tíma.


Deila ellilífeyrisárunum á lífið

„Margir bíða með ferðalög og aðra drauma þar til farið er á ellilífeyri. Maður heyrir fólk oft segja; „Þegar ég hætti að vinna, þá ætla ég að gera hitt og þetta.“ Mér finnst það sorglegt því alltof oft hefur það ekki kraftinn til að gera það þegar það hættir að vinna eða eitthvað annað hefur komið upp sem truflar."


„Þetta er alltaf spurning um forgangsröðun, innkomu og útgjöld. Við höfum verið dugleg við að stramma útgjöldin af, til dæmis með því að nota íbúðaskipti."


Ég lít þannig á þetta að við hjónin séum að deila ellilífeyrisárunum niður á lífið. Ég sá eitt sinn Ted fyrirlestur þar sem grafískur hönnuður búsettur í Bandaríkjunum sagði frá því að hann lokaði alltaf fyrirtæki sínu á fimm ára fresti til að ferðast. Í hvert sinn tapaði hann auðvitað fullt af viðskiptavinum en í hvert sinn kom hann til baka svo endurnærður og uppfullur af nýjum hugmyndum að þetta borgaði sig alltaf. Þetta fannst mér heillandi hugmynd.“

Fyrir tveimur árum síðan ákvað fjölskyldan að vera allan veturinn úti.

„Það var þá sem hugmyndin að þessari nýju handbók, Spánn – Nýtt líf í nýju landi, sem ég var að gefa út, kviknaði. Við urðum að fara í gegnum allt þetta ferli, skrá börnin í skóla, fá spænska kennitölu og allt þetta sem maður þarf að klóra sig fram úr í nýju landi. Þetta getur verið svolítið flókið og misjafnt enda skiptist Spánn í 17 sjálfsstjórnarsvæði,“ segir Snæfríður sem ákvað því að einbeita sér að þeim svæðum sem Íslendingar sækja helst; Costa Blanca svæðinu og kanarísku eyjunum.

„Ég hefði sjálf verið til í svona handbók þegar við fluttum hingað á sínum tíma því það getur sannarlega verið hausverkur að finna út úr spænska kerfinu og því hvar eigi að byrja undirbúningsferlið .“


Klósettpappír skammtaður


Fjölbreytt val er í boði í skólamálum og þegar fjölskyldan bjó á eyjunni heilan vetur gengu allar dæturnar í almennan spænskan skóla. Það reyndist töluverð áskorun enda engin þeirra spænskumælandi og kerfið ólíkt því sem þau áttu að venjast.


„Skólinn hér er svolítið gamaldags miðað við á Íslandi, meiri páfagaukalærdómur og minni áhersla á félagslega hlutann. Gamaldags refsingar viðgangast og sem dæmi þá lenti elsta dóttirin margoft í því að frímínúturnar voru teknar af bekknum af því að einhver hegðaði sér illa. Þá var allur bekkurinn látinn líða fyrir það, allir þurftu að sitja inni og skrifa „ég hegðaði mér illa,“ aftur og aftur í stílabók.


„Þá var allur bekkurinn látinn líða fyrir það, allir þurftu að sitja inni og skrifa „ég hegðaði mér illa,“ aftur og aftur í stílabók."


Þá þurftu nemendur að biðja kennarann um klósettpappír í hvert sinn sem þeir fóru á salernið og var þeim skammtaður pappír eftir því hvort gera átti eitt eða tvö. Þetta fannst elstu dótturinni til dæmis mjög óþægilegt.“ Snæfríður segir heraga hafa ríkt í skólanum og dæturnar hafi ekki fengið neinn afslátt þrátt fyrir að vera ótalandi á spænsku við upphaf náms.


Við bugun fyrstu mánuðina

„Við héldum að við yrðum bara með kokteila á ströndinni en gerðum lítið annað fyrstu mánuðina en að læra með dætrunum. Sjálf töluðum við litla sem enga spænsku á þessum tíma svo við vorum við það að bugast fyrstu þrjá mánuðina,“ segir hún og hlær að upprifjuninni.

„Stelpurnar voru hetjurnar enda altalandi á spænsku eftir þetta og stóðu sig ótrúlega vel. Eins kunnu þær svo miklu betur að meta ýmislegt á Íslandi sem áður þótti sjálfsagt.“

Bakslög komu líka úr fleiri áttum þegar verkefni sem Snæfríður hafði gert ráð fyrir að sinna úti datt upp fyrir og bakreikningur barst frá skattinum.

Snæfríður segist líta þannig á þetta að þau hjónin séu að deila ellilífeyrisárunum niður á lífið.

„Við heyrðum oft frá fólki að við værum svo heppin og svo sniðug en þarna vorum við hvorki heppin né sniðug, við bara æddum út í þetta og þurftum virkilega að hafa fyrir því að láta þetta ganga upp. Uppskeran var ótrúlegt ár sem aldrei gleymist.“

Snæfríður segir algengustu spurningarnar sem þau fái vera hvernig þau hafi efni á þessu og hvernig þau meiki að vera allan þennan tíma með börnunum sínum.

„Ég segi alltaf; „Ef það er vilji þá er vegur.“ Margir vinir okkar benda á að við séum með börn á réttum aldri í svona lagað en það er aldrei fullkomlega rétti tíminn,“ segir Snæfríður en dæturnar eru á yngsta stigi, miðstigi og unglingastigi.

Hinni spurningunni segist hún svara á þennan hátt; „Við byrjuðum snemma að ferðast með þær og erum komin með mikið þol hvert fyrir öðru. Þetta er eins og með margt annað, maður þarf að byrja snemma og það er mikilvægt að gefast ekki upp. Auðvitað var oft erfitt að fara með þrjú börn og farangur í gegnum flugvelli en þetta kemst upp í vana.„Við heyrðum oft frá fólki að við værum svo heppin og svo sniðug en þarna vorum við hvorki heppin né sniðug, við bara æddum út í þetta og þurftum virkilega að hafa fyrir því að láta þetta ganga upp."


Langar ekki að bíða


Mig langar ekki að bíða eftir að börnin verði stór til að ferðast því mér finnst svo gaman að ferðast með þeim og sjá heiminn með augum þeirra. Við höfum auðvitað velt því fyrir okkur hvaða áhrif það hafi á þær að vera svona mikið með okkur en vonandi kennir þetta þeim víðsýni og gefur þeim kjark og þor til að taka ákvarðanir út frá eigin hugmyndum og sjálfstæði til að skapa sitt eigið líf.

Hvað segir eldra fólk svo oft að það sjái eftir? Að hafa ekki varið meiri tíma með börnunum sínum. Því í raun er tíminn einu verðmætin í lífinu.

Eins og fyrr segir hófust ævintýrin á jólaferðalögum til Kanarí­eyjanna.

„Yngsta dóttir okkar sem er sjö ára hefur því aldrei upplifað hefðbundin jól. Við vorum reyndar heima þar síðustu jól og hún tók þá þátt í jólaundirbúningi í skólanum í fyrsta sinn. Þar áttu þau að segja frá jólahefðum fjölskyldunnar og hennar svar var að fara á ströndina og fá sér pítsu,“ segir Snæfríður og hlær. „Hún hafði aldrei upplifað neitt annað.“

Aldrei jól í barnæsku

Snæfríður hafði sjálf ekki upplifað það sem við köllum hefðbundin jól og var ekki föst í hefðum eins og margir en það var þó af allt annarri ástæðu.

„Mér hefur aldrei fundist mál að sleppa jólunum enda var uppeldi mitt óhefðbundið þar sem móðir mín er Votti Jehóva,“ segir Snæfríður sem alin var upp í söfnuðinum þó faðir hennar hafi ekki verið hluti hans.

„Það voru aldrei jól á mínu heimili en foreldrar mínir reyndu þó að fara einhvern milliveg og því var hreint á rúmum og hangikjöt á borðum en aldrei neitt jólaskraut eða jólagjafir.“


„Það voru aldrei jól á mínu heimili en foreldrar mínir reyndu þó að fara einhvern milliveg og því var hreint á rúmum og hangikjöt á borðum en aldrei neitt jólaskraut eða jólagjafir.“


Snæfríður fékk kenningar safnaðarins beint í æð á æskuárunum, sótti samkomur og var látin stúdera Biblíuna.

„Auðvitað var þetta stórfurðuleg æska á margan hátt og mörg Vottabörn hafa stigið fram og sagt frá einu og öðru en ég hef einbeitt mér að því að sjá styrkleikana í þessu uppeldi. Til dæmis er eitt markmið Vottanna að þjálfa safnaðarmeðlimi upp til þess að ganga í hús og boða trúna og því reka þeir ræðuskóla sem ég fór í. Það hefur nýst mér vel í mínu starfi að hafa snemma lært að skrifa og halda ræður og ég fór auðvitað bara beint í fjölmiðla.“

Snæfríður segist ekki endilega hafa spáð í því að hennar líf væri ólíkt annarra þegar hún var yngri enda spyrji börn ekki endilega slíkra spurninga.

„Eftir því sem ég varð eldri fór ég að spyrja gagnrýnni spurninga varðandi þetta allt saman og hafði svo engan áhuga á að ganga í söfnuðinn þegar ég komst á unglingsár. Ég var svo heppin að ég gat flutt til systur minnar í Reykjavík beint eftir grunnskólann, var svo fljótlega farin að leigja sjálf og ferðast um heiminn.“


Frelsi að vera laus við hefðir

Það er fleira jákvætt sem Snæfríður segist hafa tekið úr uppeldinu.

„Mér finnst ég alltaf utangátta í desember því ég kann ekkert á þessar jólahefðir. En það er ákveðið frelsi í því að vera ekki fastur í hefðum sem geta verið heftandi. Það er fullt af fólki sem langar að gera eins og við en getur það ekki vegna ákveðinni hefða. Innst inni þá held ég að ein aðalástæðan fyrir því að ég leita svona mikið erlendis er að ég ólst upp við að vera stórfurðuleg. Ég passaði ekki inn í kassann sem krakki og sem fullorðin vil ég heldur ekki lifa lífinu í þessum hefðbundna kassa“

Snæfríður segir marga hafa hneykslast á því að þau hjónin færu utan með þrjú börn í miðjum heimsfaraldri.

„Að okkar mati lá mesta áhættan í sjálfu ferðalaginu, að fara í gegnum flugvelli í mismunandi löndum. Hér erum við mikið úti í náttúrunni, reynum að fara gætilega og hugum að persónulegum sóttvörnum en þó það sé heimsfaraldur verður maður að reyna að halda áfram að lifa lífinu eins eðlilega og unnt er. Það er ekkert bannað að ferðast þó það sé vissulega flóknara en í venjulegu árferði. “

Þau hjón vöndu dæturnar snemma á langar göngur og þó það hafi þurft tiltal í byrjun þá er það oft svo í dag að þær eiga hugmyndina að göngu.

Fjölskyldan hefur nú dvalið ytra frá því í desember en upphaflega var ætlunin að vera aðeins yfir jólin. Flókin og kostnaðarsöm ferðalög þar sem flugum var aflýst og svo framvegis urðu þó til þess að þau ákváðu að hafa ferðina lengri og Snæfríður ákvað að nýta tækifærið til að ná í síðustu upplýsingarnar í handbókina sem hefur verið nærri tvö ár í vinnslu. Eldri dæturnar tvær eru í heimaskóla frá Íslandi en sú yngsta er í svokölluðum náttúruskóla þar sem öll kennsla fer fram utandyra.

„Skóli er svo margt annað en það sem gerist innan veggja kennslustofunnar. Börn læra einnig mikið af því að vera á ferðalögum og vera í tengslum við foreldra sína og annað fullorðið fólk.“


Eðlilegt líf í heimsfaraldri

Snæfríður segir lífið ganga sinn vanagang í El Médano þrátt fyrir að heimsfaraldur ríki.

„Við erum í bæ sem er mikið til spænskur og þar er lífið nokkuð eðlilegt og ekki eins og á ferðamannastöðunum þar sem starfsemin liggur sums staðar alveg niðri. Þegar maður fer til dæmis á Amerísku ströndina og horfir á öll hótelin sem standa tóm og lokaða veitingastaði er maður minntur á ástandið en þar sem við erum lifir fólk nokkuð eðlilegu lífi. Hér í okkar bæ er allt opið þó það sé grímuskylda og fjöldatakmarkanir.“


„Við erum í bæ sem er mikið til spænskur og þar er lífið nokkuð eðlilegt og ekki eins og á ferðamannastöðunum þar sem starfsemin liggur sums staðar alveg niðri."


Útgöngubann er í gildi frá klukkan tíu á kvöldin til sex á morgnana en Snæfríður segir þau finna lítið fyrir því enda heima með börn hvort eð er. Hún segir töluvert um útlendinga á eyjunni þó lítið sé um hina hefðbundnu ferðamenn. Meira er um fólk í fjarvinnu sem dvelur lengur á eyjunni og vill njóta þess að vera í sólinni og fjarri stórborgum með harðari sóttvarnaaðgerðir.

„Fólk verður bara að gera upp við sjálft sig hvað það vill gera. Við viljum lifa lífinu með þessum hætti og við tökum ábyrgð á því enda eins og ég sagði áður þá er tíminn það eina verðmæta í lífinu. Hvað veit maður með þessa veiru og hvað tekur við þegar hún er búin? “

Athugasemdir