Tamayo Marukawa, jafnréttisráðherra Japan, leggst gegn frumvarpi um breytingar á nafnalögum þannig að konur fengju að halda eftirnafni sínu við giftingu samkvæmt breska blaðinu The Guardian.
Í Japan er hjónum enn bannað að bera sitt eftirnafnið hvort. Hefur það verið harðlega gagnrýnt af kvenréttindahreyfingum í gegnum tíðina. Í 96 prósentum tilvika taka konur ættarnafn eiginmanns við giftingu. Af iðnvæddum ríkjum heims er Japan eftirbátur í kvenréttindabaráttu og fáar konur sitja í ríkisstjórn.
Nafnamálið hefur komið til kasta dómstóla. Árið 2015 úrskurðaði hæstiréttur að löggjöfin, sem er frá 1896, stangaðist ekki á við stjórnarskrá. Marukawa segir andstöðu sína við frumvarpið ekki draga úr henni í jafnréttisbaráttunni. Fylgir hún flokksfélögum sínum á hægrivængnum sem telja breytingu geta skaðað fjölskyldugildin.
Þetta er í mikilli andstöðu við þjóðarviljann. Rúmlega 70 prósent Japana eru hlynnt breytingu á löggjöfinni en aðeins tæpleg 15 prósent vilja halda henni óbreyttri.
Marukawa segir ákvörðun sína persónulega en þrátt fyrir það notar hún sjálf sitt eigið ættarnafn út á við. Hún er gift þingmanninum Taku Otsuka og ber því Otsuka-nafnið á öllum opinberum skjölum.