Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ sem skipar efsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi, vill að sjávarútvegsfyrirtæki eins og Samherji verði brotin upp.

Telur hann nauðsynlegt að brjóta upp virðiskeðjuna sem gera fyrirtækjum kleift að spila með verðið. „Samherji á að minnsta kosti þrjá veitingastaði á Akureyri. Hann á nánast fiskinn ofan í klósettið hjá okkur.“

Hluti af kosningaáherslum eða „tilboðum“ flokksins varða sjávarútveginn og kallast „Brjótum upp Samherja - Endurheimtum auðlindirnar“. Haraldur sagði í samtali við Harmageddon í dag að stór fyrirtæki eins og Samherji hafi hersveitir af fólki sem hafi áhrif á stjórnmálamenn á bak við tjöldin.

„Við munum vel eftir því fyrir norðan þegar Samherji hótaði að loka heilu sjávarþorpi.“

„Við munum vel eftir því fyrir norðan þegar Samherji hótaði að loka heilu sjávarþorpi vegna þessa að Seðlabankinn átt að hlýða fyrirtækinu. Hótuðu að fara frá Dalvík sem hefði þýtt að bærinn hefði lagst í rúst,“ sagði Haraldur en að hans mati er skortur á lagaumgjörð til að hafa hemil á stórfyrirtækjum.

„Það er þetta vald sem við getum ekki sætt okkur við í samfélaginu,“ sagði Haraldur og bætti við: „Maður finnur fyrir þessu ógnarvaldi. Það er hér í kjördæminu og í lýðræðissamfélagi eigum við ekki líða svona lagað.“