Hrafnhildur P. Þorsteinsdóttir birti um síðustu helgi samantekt á Facebook-síðu sinni og myndir af dýraníð sem hafa, að hennar sögn, fengið að viðgangast undir eftirliti og stjórn Matvælastofnunar. Hún kallar eftir breytingum á dýrahaldi á Íslandi, á eftirliti með því og lögum og reglugerðum.
„Ég er bara einstaklingur, einhver kona út í bæ. Ég nafngreini bara bæi sem þegar hafa verið nafngreindir í svona málum í færslunni en ég vil hreyfa við æðstu mönnum. Almenningur er brjálaður,“ segir Hrafnhildur um færsluna.
„Bændur um land allt hafa haft samband við mig vegna þessa og hafa bent mér á bæi sem hafa allt niðrum sig,“ segir hún og um fámennan hóp bænda sé að ræða sem hafi ekki sitt á hreinu.
Hún beitti sér fyrr í mánuðinum í máli hrossanna á Vesturlandi sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum en þrettán þeirra voru að enda felld.
„Síminn hefur ekki stoppað síðan og það hafa margir bændur hringt og þakkað mér fyrir,“ segir hún en hún sjálf hefur verið í sveit átta sumur og í hestum allt sitt líf.
Hún segir að það hafi vantað svona samantekt og yfirsýn í þessum málum og gagnrýnir að dómstólar hafi ekki tekið harðar á svona málum.
„Það er andvaraleysi og meðvirkni.“
Enginn fangelsisdómur fyrir dýraníð
Hún er mjög gagnrýnin á að allir geti haldið dýr á Íslandi og að eftirliti með því sé einnig svo ábótavant.
„Það er merkilegt að það er ekkert fordæmi fyrir því að fólk fái fangelsisdóm fyrir dýraníð. Það þarf að breyta lögunum og gera það að skyldu að fá leyfi til að halda skepnur. Ég vil að reglum sé breytt eins og í Noregi og að níðingar fari í fangelsi og fái ekki að halda skepnur í fimm ár,“ segir Hrafnhildur.
Hún segir að hún vonist til þess að fá stuðning frá samtökum eins og Bændasamtökunum í þessari baráttu sinni og frá stjórnmálamönnum.
Hrafnhildur var í viðtali í síðustu viku á vef Mannlífs þar sem hún sagði að ef einhver væri með vit á Alþingi þá myndu þau sjá að það er mikið að.
„Það er hægt að blaðra endalaust um það hvort að vínbúðin eigi að vera opin á sunnudögum eða fara selja vín í matvöruverslunum. Ég nota orð Georgs Bjarnfreðarsonar um þetta: Þetta er fólk sem hefur of mikinn frítíma,“ sagði hún í viðtalinu.
Þá segir hún Matvælastofnun ekki geta sinnt eftirliti og skepnur eigi ekki að gjalda þess að fólk misþyrmi þeim. Hún kallar eftir því að svipað kerfi sé uppi og fyrir börn.
Eftirlitsmenn of tengdir
Hún er einnig gagnrýnin á það að dýraeftirlitsmenn séu kynbótadómarar og vill að það séu óháðir aðilar sem búi ekki á því svæði sem dýrin eru á, sem gerir ekki boð á undan sér og hafa engin tengsl við eigendur.
„Eftirlitsmenn á svæðum á Suður- og Vesturlandi eru kynbótadómarar sem er óásættanlegt vegna tengsla. Þetta er mjög óþægilegt í öllu falli vegna okkar smæðar,“ segir Hrafnhildur og að það sé deginum ljósara að það þurf einhver ótengdur að annast þessi mál.
„Í þessum málefnum ætti að vera fólk sem hefur ekki nein tengsl, bara kerfisfólk. Ískalt.“
Hrafnhildur segir MAST hafa takmarkaða getu til að fara í aðgerðir og sé „logandi hrætt við málsóknir“ og að héraðsdómur hafi iðulega ekki tekið hart á slíkum málum. Hún segir lagaumgjörðina ekki nægilega góða og að landsvæði héraðsdýralækna séu of stór.