Athafnamaðurinn Haraldur Þorleifsson segist borga flugmiða og gistingu á Grikklandi fyrir Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, svo hann geti kynnt sér aðstæður þeirra flóttamanna sem þar eru.
Haraldur greindi frá boðinu á samskiptamiðlinum Twitter í dag, en boðið hefur vakið talsverða athygli netverja.
Ég skal borga flugmiða og gistingu fyrir Jón Gunnarsson ef hann kemur með mér að skoða aðstöðu flóttafólks í Grikklandi.
— Halli (@iamharaldur) November 10, 2022
Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds er meðal þeirra sem skildi eftir athugasemd við tíst Haraldar.
„Ég var einhverntímann með hugmynd um ferðaskrifstofu rasista. Crowdfunded ferðir fyrir rasista til múslímalanda. Getum kallað hana Feðraveldið,“ skrifar Ólafur.
„Ef það er þetta sem þarf til þess að maðurinn hætti að ljúga í fjölmiðlum þá veitir ekki af,“ skrifar ein.
„Af hverju samt? Honum er skítsama hvort aðstæður séu góðar eða ekki. Maðurinn er tjara að innan,“ skrifar annar.
Eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag mætti Jón Gunnarsson á fund með allsherjar- og menntamálanefnd til þess að svara spurningum um aðgerðir og aðferðir lögreglu í síðustu viku, þegar fimmtán umsækjendum um vernd var vísað úr landi í skjóli nætur.
Á fundinum sagði Jón meðal annars að það væri öruggt að fólk sem sent væri til Grikklands endaði ekki á götunni.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, telur að Jón hafi einungis endurtekið rangfærslur á fundinum, sem áður hafi komið fram.
„Því er haldið fram núna að það sé ekki rétt að fólk sé á götunni en það liggja fyrir um þetta opinberar og áreiðanlegar skýrslur opinberra aðila. Þetta er ekki eitthvað sem við eigum að vera að þræta um. Það er svolítið leiðinlegt hvernig þeim hefur tekist að gera það að einhverju vafamáli í þessari umræðu. Það var kannski svolítið leiðinlegt,“ sagði Arndís Anna.