Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti fyrir ríkisstjórninni áætlun, um aðgerðir til að draga úr sykurneyslu landsmanna, á fundi ríkisstjórnarinnar síðasta föstudag. Ákveðið var að skipa starfshóp sem falið verður að innleiða áætlunina en Embætti landlæknis setti áætlunina upp. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Ráðherrann birti grein í Morgunblaðinu í dag þar sem fjallað er nánar um málið. Þar kemur til dæmis fram að meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til verði hærri álögur á sykurríkum mat en lægri álögur á ávöxtum og grænmeti.

„Það er mín skoðun að skattlagning ætti að vera ein af forgangsaðgerðum stjórnvalda til að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma,“ segir Svandís og búast má þannig við að einhvers konar sykurskatti verði aftur komið á en slíkur skattur var í gildi árin 2013-2015.

Þá bendir hún á að á Íslandi sé mest neysla á sykruðum gosdrykkjum og sykurríkum vörum, samanborið við hin Norðurlöndin. Sykraðir gos- og svaladrykkir vega þyngst í sykurneyslu landsmanna og kemur þannig rúmur þriðjungur af viðbættum sykri í fæði Íslendinga úr þessum vörum. Verðlækkun sem hefur átt sér stað á til dæmis gosdrykkjum sé andstæð þeirri þróun sem á sér stað í vestrænum löndum.

Hlutfall offeitra er hátt á Íslandi og neysla á sykurríkum vöru eykur líkur á offitu, tannskemmdum og sykursýki af tegund 2. Aðgerðaráætlunin er í 14 liðum sem lúta meðal annars að heilsueflandi samfélögum, skólum og vinnustöðum. Einnig er miðað við að auka heilbrigðisfræðslu á öllum skólastigum.