Nýkjörinn forseti Kósta Ríka, hinn 38 ára fyrrverandi blaðamaður Carlos Alvardo, tilkynnti það á dögunum að hann hyggst setja þá stefnu fyrir ríkið að banna jarðefnaeldsneyti og færa hagkerfið alfarið yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Alvardo tilkynnti þessi áform í ræðu sinni er hann tók við embætti í vikunni. „Afkolefnavæðing er stærsta áskorun okkar kynslóðar, og Kósta Ríka verður að vera eitt hinna fyrstu ríkja til að sigrast á þeirri áskorun, ef ekki það allra fyrsta,“ sagði forsetinn nýkjörni. „Við eigum það gríðarstóra og fallega verk fyrir höndum að útrýma notkun jarðefnaeldsneytis í okkar hagkerfi til að rýma fyrir notkun á hreinni og endurnýjanlegri orku.“

Það þótti táknrænt að þessu leyti að Alvardo mætti til innsetningarathafnarinnar í vetnisknúinni rútu.

Nú þegar er nær öll orka í Kósta Ríka endurnýjanleg. Sérfræðingar telja þó að ná hinu endanlega markmiði með miklum hraða verði erfitt, jafnvel fyrir ríki sem er þekkt fyrir mikla umhverfisvitund.

Holskefla loftslagsmótmæla um allan heim

Yfirlýsing forsetans kemur, eins og þekkt er, sem innlegg inn í mikla umræðu um umhverfisvernd á heimsvísu. Ungmenni um allan heim, þ.á.m. á Íslandi, hafa efnt til vikulegra mótmæla til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum. Rúmlega þúsund mótmælendur hafa verið handteknir í miðborg Lundúna á undanförnum mánuðum, og ríkisstjórnir Bretlandseyja hafa allar lýst yfir neyðarástandi í umhverfismálum.

Íslenska ríkisstjórnin hefur sagst ætla gera Ísland að kolefnishlutlausu ríki fyrir 2040. Meðal aðgerða er fyrirhugað bann á nýskráningu bensín- og dísilbíla eftir árið 2030. Innlent baráttufólk og hagsmunasamtök hafa gagnrýnt aðgerðaleysi stjórnvalda og segja að aðgerðirnar séu of litlar og komi of seint — hækka þurfi kolefnisgjöld og flýta aðgerðum til muna.

Hins vegar bárust fregnir af því á dögunum að ríkisstjórnin hyggst banna notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands, en það er ein af þeim aðgerðum sem boðaðar eru í umhverfismálum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.