Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, vill banna blóðtöku á fylfullum hryssum. Hún hefur lagt fram frumvarp til laga á Alþingi ásamt flokksbróður sínum Guðmundi Inga Kristinssyni og tveimur þingmönnum Pírata, Olgu Margréti Cilia og Söru Elísu Þórðardóttur, um að bannað verði að taka blóð úr fylfullum hryssum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.

Fréttablaðið greindi frá því á sínum tíma að blóð hafi verið tekið úr rúmlega fimm þúsund fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu af meiraeigendum og líftæknifyrirtækjum á árinu 2019. Öllum folöldum blóðmera er slátrað til kjötframleiðslu, sett á til endurnýjunar eða nýtt til reiðhestaræktunar í einhverjum tilfellum.

Ástæðan fyrir þessari blóðtöku er að nýta efni sem heitir PMSG (e.Pregnant Mare Serum Gonadotropin), sem finnst í blóði fylfullra hryssna, sem hægt er að nota til að örva þroska eggbúa í öðrum dýrategundum en hrossum, einkum í svínarækt.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki upplýsingar um veltu einstaklinga og fyrirtækja sem stunda blóðmerahald á Íslandi en ætla má að verðmæti hryssublóðs sé umtalsvert. Hrossabændur geta þrefaldað tekjur sínar með því að selja blóð fylfullra mera til framleiðslu á frjósemislyfjum samkvæmt framkvæmdastjóra Ísteka, Arnþóri Guðlaugssyni, í grein Morgunblaðsins frá árinu 2015.

„Það brýtur gegn öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni.“

Grimmur iðnaður í Úrúgvæ og Argentíu

Þingmennirnir segja í greinargerð sinni að lög um velferð dýra hafi það að markmiði að vernda dýr gegn ómannúðlegri meðferð. Bannað sé að ofbjóða kröftum dýrs eða þoli eða misbjóða dýrum á annan hátt en þrátt fyrir það er virkur iðnaður á Íslandi sem felst í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr blóðinu hormón sem seld eru til líftæknifyrirtækja

„Miklir fjárhagslegir hvatar eru til staðar til að hámarka afköst,“ segja þingmennirnir og benda á að erlendis sé þessi iðnaður stundaður með grimmilegum hætti.

„Í Úrúgvæ og Argentínu eru dæmi um að merar sæti ofbeldi við blóðtöku og að framleiðendur framkvæmi fórstureyðingu svo hægt sé að fylja þær á ný, en þannig má auka framleiðslu á PSMG-hormóninu sem fyrirfinnst aðeins á fyrsta þriðjungi meðgöngu.“

Blóðtaka var framkvæmd á fimm þúsund fylfullum hryssum á Íslandi á árinu 2019. Blóðið er síðan nýtt í lyfjaframleiðslu og flestum folöldum meranna er slátrað í kjölfarið.
Fréttablaðið/Getty images

Taka 14 prósent af blóði þegar viðmiðið er 7,5 prósent

Vitnar hún í viðmið fyrir dýratilraunir hjá Virginia Tech-háskóla í Bandaríkjunum þar sem lagt er til að ekki sé tekið meira en 10 prósent af blóðmagni á fjögurra vikna fresti og að ekki sé tekið meira en 7,5 prósent af blóðmagni við blóðtöku sem framkvæmd er á vikufresti. Hér á landi er hins vegar gengið talsvert lengra.

„Á meðan hormónið finnst í blóði meranna er framkvæmd blóðtaka á viku fresti, 5 lítrar í hvert skipti, 7–8 sinnum yfir sumarið. Íslenski hesturinn er minni en erlend hestakyn og því er blóðmagn í íslenskum merum aðeins 35–37 lítrar. Hér er því verið að taka um 14 prósent af blóðmagni þeirra á viku hverri í tvo mánuði.“

Þingmennirnir benda á að ekki er fjallað sérstaklega um þessa starfsemi í frumvarpi um velferð dýra og ekki er fjallað um hana sérstaklega í reglugerð um velferð hrossa eða í reglugerð um velferð dýra sem eru notuð í vísindaskyni. Ekki er hægt að finna hversu langt megi ganga við reglulega blóðtöku úr fylfullum merum í því skyni að framleiða PSMG umfram almenn ákvæði þeirra. Það sé mikið áhyggjuefni og með öllu ótækt í ljósi hve umfangsmikil þessi starfsemi er hér á landi.

„Það brýtur gegn öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni. Því er lagt til að bannað verði að taka blóð úr fylfullum merum í því skyni að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.“