„Við munum ekki ná að stoppa hjólreiðafólk að koma hingað,“ segir Árni Magnús Magnússon, eigandi Fjord Bikes, sem óskar eftir afstöðu heimastjórnar Borgarfjarðar eystri til uppbyggingar á fjallahjólreiðaleiðum.

Heimastjórnin kveðst jákvæð fyrir uppbyggingu slíkra leiða en segir slíkt þurfa að gerast í sátt og samstarfi við landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Hún geti þó ekki tekið afstöðu til óskilgreindra hjólaleiða.

Árni segir að við gerð hjólaleiða fari hann eftir gæðahandbók IMBA, sem eru alþjóðasamtök fjallahjólreiða og umhverfisvernd. Sem dæmi séu uppteknar torfur hafðar eins stórar og hægt er og þær settar niður annars staðar, til dæmis til að hylja önnur sár.

„Ég byrja á að fá leyfi hjá landeiganda áður en ég fer að kanna og hanna mögulegar leiðir. Svo er það unnið í samvinnu við þá. Þannig það er ekki farið yfir beitiland eða álíka,“ segir Árni, sem á og rekur Fjord Bikes sem gerir út á fjallahjólreiðar um Víknaslóðir.

Að sögn Árna eru mikil tækifæri í fjallahjólreiðaferðamennsku líkt og í fjallaskíðamennsku, sem sé þekkt stærð í ferðamennsku hér á landi. Einbeitingin við að fara niður brekku á hjóli sé engu lík.

„Það hefur sýnt sig og það eru til einhverjar rannsóknir að þessi fókus sem þarf þegar brunað er niður brekkurnar hefur góð áhrif á geðheilsuna.“

Árni segir skorta pólitískan vilja í málinu. Hann vilji útvíkka upplifun ferðamanna á Austurlandi.

„Við sáum það í Dyrfjallahlaupinu að það voru nánast allir með hjól á toppnum á bílnum. Göngusvæðin hér eru í heimsklassa og það getur skapað núning milli notendahópa en ég vil útvíkka upplifunina,“ segir Árni, sem telur lítið mál að leysa núninginn þar sem allir geti lifað í sátt og samlyndi á fjöllum. Það þurfi einungis að horfa til Alpanna og nefnir skíðasvæðið í Salzburg.

„Þar er búið að losa núninginn bara með upplýsingagjöf. Að einhverju leyti er búið að gera þetta í Skálafelli en munurinn er að það er ekki mikið um gönguleiðir upp Skálafell eins og er hér. Það eru 160 kílómetrar merktir göngustígar hér – hver öðrum fallegri. En þetta eru tveir mismunandi notendahópar sem eru með mismunandi þarfir og það sem ég vil gera er að mæta þörfum fjallahjólreiðahópsins,“ segir Árni.